Fjármálin

Fjármál og rekstur

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs:

 „Það er ánægjulegt að sjá að rekstur ársins var samkvæmt áætlunum og við höfum náð þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.“

Helstu atriði ársreikningsins:

  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBITDA) nam 61,1 milljón USD (7.102,2 millj.kr.), samanborið við 59,3 milljónir USD (6.902,8 millj.kr.) árið áður. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er því mjög sambærileg á milli ára.
  • Hagnaður nam 37,1 milljón USD (4.319,8 millj.kr.) á árinu 2018 samanborið við 28,0 milljóna USD (3.258,8 millj.kr.) hagnað á árinu 2017.
  • Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 38,8 milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 70,4 milljónum USD.

Hér er hægt að nálgast ársreikninginn.

Tekjumörk og gjaldskrár 2018

Við störfum á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og samkvæmt 12. gr. laganna skal Orkustofnun setja fyrirtækinu tekjumörk. Þau eru tvískipt, annars vegar vegna flutnings á raforku til dreifiveitna og hins vegar vegna flutnings til stórnotenda. Tekjumörkin voru sett til fimm ára í senn og taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði félagsins, afskriftum fastafjármuna, sköttum og leyfðri arðsemi, sem Orkustofnun ákveður árlega.

Við hjá Landsneti ákveðum gjaldskrá vegna þjónustu okkar í samræmi við sett tekjumörk; fyrir dreifiveitur í íslenskum krónum og fyrir stórnotendur í bandarískum dollar. Heimilt er að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt tekjumörkum milli ára við árlegt uppgjör tekjumarka en uppsafnaðar of- eða vanteknar tekjur skulu aldrei nema meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára. Stöðugleiki í tekjumörkum og arðsemi er félaginu mikilvægur.

Leyfð arðsemi

Árið 2016 hófst nýtt tekjumarkatímabil sem gildir til 2020 og hafa fyrri tekjumarkatímabil verið gerð upp. Leyfð arðsemi Landsnets vegna 2018 lá fyrir 25. apríl 2017 og í meðfylgjandi töflu má sjá ákvarðanir Orkustofnunar um arðsemi Landsnets frá árinu 2016, eftir skatt:


201620172018
Dreifiveitur5,92%5,75%5,66%
Stórnotendur5,48%5,46%5,32%

*Ákvörðun Orkustofnunar um arðsemi lá fyrir 21. júlí 2015

Breytingar á flutningsgjaldskrá

Árið 2018 voru engar breytingar gerðar á flutningsgjaldskrám Landsnets, hvorki til dreifiveitna né stórnotenda.

Á núverandi tekjumarkatímabili hækkaði leyfð arðsemi Landsnets og í kjölfarið þurfti að leiðrétta flutningsgjaldskrár Landsnets. Annars vegar þurfti að hækka gjaldskrá til dreifiveitna tvisvar á skömmum tíma til þess að bregðast við þessum breytingum. Hins vegar þurfti að lækka gjaldskrá til stórnotenda þar sem Landsnet vinnur að endurgreiðslu skuldar frá fyrra tekjumarkatímabili. Gjaldskrá til stórnotenda er því of lágt sett en gjaldskrá til dreifiveitna hefur náð góðum stöðugleika.


Breytingar á gjaldskrá vegna flutningstapa

Árið 2018 var útboð vegna flutningstapa haldið ársfjórðungslega. Þetta fyrirkomulag hófst árið 2017 og skilaði þéttari endurgjöf á verði til markaðsaðila og meiri sveigjanleika, skilvirkni og hagkvæmni í innkaupum. Gjaldskrá vegna flutningstapa breytist í takt við hvert útboð og á hún að endurspegla raunkostnað hvers ársfjórðungs. Breytingar á gjaldskrá vegna flutningstapa voru fjórar á árinu og tóku gildi í upphafi hvers ársfjórðungs en útboðum lauk tveimur mánuðum áður.

Gjaldskrá vegna flutningstapa er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og birt í íslenskum krónum.

Breytingar á gjaldskrá vegna kerfisþjónustu

Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkaði um 12% þann 1. júlí 2018, fyrst og fremst til þess að mæta hækkunum í kaupum á reglunaraflstryggingu ásamt annarri hækkunarþörf.

Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem við veitum til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverjum tíma. Undir kerfisþjónustu fellur einnig útvegun reiðuafls, varaafls sem er tengt kerfinu og tiltækt án fyrirvara, reglunaraflstrygging sem tryggir lágmarksframboð á reglunaraflsmarkaði og varaafl.

 

Áhættustjórnun

Tryggvi Guðbrandsson yfirmaður fjárstýringar og áhættu:

 „Markmið okkar er að tryggja samfelldan rekstur við hverjar þær aðstæður sem upp kunna að koma og stefna að ásættanlegri afkomu á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættuþátta í rekstrinum.“

Tilgangur áhættustjórnunar er að styðja við grunnhlutverk Landsnets sem er að flytja raforku á samfelldan, hnökralausan, öruggan og hagkvæman hátt. Á árinu var unnið að kortlagningu áhættuþátta  þar sem m.a. var farið yfir öryggi starfsfólks, samstarfsaðila og viðskiptavina ásamt því hvernig við tryggjum öryggi í rekstri og uppbyggingu og við kerfisstjórnina. Enn fremur var fjárhagsleg staða fyrirtækisins kortlögð.

Framkvæmd áhættustjórnunar tekur mið af meginreglum og leiðbeiningum alþjóðlegra staðla. Sérstök áhersla er lögð á að áhættustjórnun sé hluti af menningu fyrirtækisins, starfsmenn fyrirtækisins þekki fyrirkomulag áhættustjórnunar og vinni samkvæmt því.

Áhættumat

Gert var áhættumat á rekstri fyrirtækisins þar sem þeir áhættuþættir sem geta skapast í starfsemi fyrirtækisins voru auðkenndir og möguleg áhrif þeirra á starfsemina skoðuð. Í kjölfarið voru skipulagðar mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir eða lágmarka áhrif þessara áhættuþátta og fylgjast með þróun þeirra. Áhættan og aðgerðirnar eru síðan endurskoðaðar með reglubundnum hætti.

Áhættusniði Landsnets skiptist í fjóra flokka:

Rekstraráhætta – áhættur sem geta truflað samfelldan rekstur raforkuflutnings til viðskiptavina.
Stjórnunaráhætta – áhættur sem kunna að hafa áhrif á stefnu, markmið og innleiðingu góðra stjórnunarhátta.

Fjárhagsáhætta – áhættur sem kunna að hafa áhrif á fjáreignir, sjóðstreymi og framboð fjármagns hverju sinni.

Váhætta – áhættur sem geta ógnað öryggi fólks, umhverfi og verðmætum fyrirtækisins.

Hverjum og einum flokki er síðan skipt niður í undirflokka og áhættuviðmið skilgreind fyrir hvern flokk. Í kjölfarið eru líkur og áhrif áhættu borin saman við áhættuviðmiðin.

 

Innkaup og birgðahald

Helgi Bogason innkaupastjóri:

 „Útboð ársins voru 11 talsins sem var helmingsfækkun frá árinu áður en hætt var við talsverðan fjölda af útboðum vegna leyfismála.“

Á árinu var lögð áhersla á gæðaferla innkaupa. Innleitt var áhættustýrt birgjamat og unnið að því að samþætta ferla birgðahalds og innkaupa. Útboðskerfi Landsnets var uppfært á árinu og er nú á íslensku. Verkefni innkaupa voru fjölbreytt og krefjandi að vanda og voru verkefni tengd tengingum á tengivirkjum þar efst á blaði þar sem vel tókst til við útvegun búnaðar á mun skemmri tíma en venjulegt er. 

Átaksverkefni var sett í gang á útisvæðum Landsnets á höfuðborgarsvæðinu og Egilsstöðum þar sem öllu efni var komið á staðsetningar og úreltu efni fargað. Alls var fargað um 450 tonnum af úreltu efni en mikið hafði safnast upp af niðurteknu úr háspennulínum og tengivirkjum. 


Lykiltölur 

Lykiltölur (fjárhæðir í þúsundum USD)201620172018
Úttekt (GWst)17.485 18.28518.855 
Töp (GWst)360373398 
Töp sem hlutfall af notkun2,0%2,0%2,1%
    
Rekstrartekjur129.743147.326154.139
Fjárfestingahreyfingar42.00774.62734.172
Fjárfestingahreyfingar sem hlutfall af rekstrartekjum32,4%51%22%
    
Rekstrarhagnaður (EBIT)49.71759.33861.052
Rekstrarhagnaður (EBIT) sem hlutfall af rekstrartekjum38,3%40,3%39,6%
Almennur rekstrarkostnaður 30.01134.67836.911
Almennur rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum23,1%23,5%23,9%
Hagnaður-12.96728.01339.185
Hagnaður sem hlutfall af rekstrartekjum-10,0%19,0%25,4%
    
Eignir770.817851.302846.332
Eigið fé308.411336.964370.303
Skuldir462.406514.338476.029
    
Arðsemi meðalstöðu eiginfjár -4,1%8,7%11,1%
Eiginfjárhlutfall40,0%39,6%43,8%
Veltufjárhlutfall0,971,781,43 
Vaxtaþekja4,3 7,00 5,98
    
Lengd loftlína í rekstri (km)2.8573.0983.099
Lengd jarð- og sæstrengja í rekstri (km)243245234
Stöðugildi í árslok119120120

Útreikningur lykilstærða:

Arðsemi meðalstöðu eign fjár = Hagnaður / Meðalstaða eigin fjár

Veltufjárhlutfall = Veltufjármunir / Skammtímaskuldir

Vaxtaþekja = EBITDA / Greidd vaxtagjöld og gengismunur

Eiginfjáhlutfall = Eigið fé / Eignir


Almennur rekstrarkostnaður = Rekstrargjöld - Afskriftir - Kerfisþjónusta og töp