Fyrirtækið

Ávörp

sigrun_bjork_jakobsdottir_nota.jpg
 
Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður:

„Fyrir hönd stjórnar Landsnets vil ég þakka öllu starfsfólki Landsnets fyrir samstarfið á árinu. Við stjórnarfólk erum stolt af að vera hluti af hópi sem heldur ljósunum logandi og þar með hjólum mannlífs og atvinnulífs gangandi.“

Segja má að árið 2018 hafi verið ár undirbúningsverkefna, samtals og samvinnu hjá Landsneti. Framundan eru stór verkefni sem snúa að styrkingu meginflutningskerfisins og við þurfum og verðum að gera það í sátt við samfélagið og umhverfið.

Í öllum stærri verkefnum, sem voru í undirbúningi á árinu, voru sett á laggirnar verkefnaráð. Jafnframt var stofnað hagsmunaráð um málefni flutningskerfisins. Í ráðinu sitja fulltrúar frá t.d. náttúruverndarsamtökum, háskólasamfélaginu og atvinnulífinu og þetta fyrirkomulag mun vonandi auka skilning á innviðum orkunnar og uppbyggingu þeirra. Ég vænti mikils af þessu ráði.

Hjá Landsneti starfar stór hópur af mjög hæfu fólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að halda ljósunum og hjólum atvinnulífsins gangandi og fyrir það vil ég færa þeim mínar bestu þakkir.

Landsnet er þekkingarfyrirtæki og mikil áhersla er lögð á þjálfun og öryggismál. Fyrir okkur skiptir máli að það sé tekið eftir því sem við gerum vel og því er ég mjög stolt af því að við fengum menntaverðlaun - menntasprota atvinnulífsins 2018. Við lítum á viðurkenninguna sem hvatningu til að gera enn betur.

Hjá Landsneti starfa 94 karlar og 26 konur og í mörg ár hefur skýrri jafnréttisstefnu verið fylgt. Á árinu fengum við gullmerki jafnlaunaúttektar PWC og það er líka hvatning fyrir okkur og merki um að við séum á réttri leið en framundan er vinna við innleiðingu á jafnlaunakerfi.

Raforkumál eru umhverfismál og þar viljum við leggja okkar af mörkum. Eitt verkefni sem myndi skila miklum árangri og minnka kolefnisfótspor þjóðarinnar er að nýta okkar dýrmætu grænu orku betur en til þess þarf að bæta flutningskerfið – styrkja byggðalínuna og það er eitt af stóru verkefnum framtíðarinnar.


guðmundur_ingi_c_.jpg

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri:

„Ég er oft spurður að því hvernig ég sé rafmagnaða framtíð fyrir mér og hvernig við eigum að mæta framtíðinni með flutningskerfi sem komið er til ára sinna. Svarið er í raun einfalt. Til þess höfum við tvær leiðir sem við þurfum að nýta báðar. Við þurfum að styrkja meginflutningskerfið og auka markaðsviðskipti með orku til að nýta betur raforkukerfið til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta þurfum við að gera í mikilli sátt við samfélagið og umhverfið.“

Þegar horft er yfir árið 2018 má segja að árið hafi verið mjög gott fyrir okkur hjá Landsneti. Við byggðum upp aukinn stöðugleika í rekstrinum, náðum viðunandi öryggi í raforkuflutningi og afkoman var góð.

Rekstur ársins var samkvæmt áætlun og hagnaður meiri en áður. Ársreikningurinn endurspeglar þær áherslur sem fyrirtækið hafði sett sér en undanfarin ár hefur markviss vinna átt sér stað í að auka stöðugleika í rekstrarumhverfi félagsins ásamt hagræðingu í ferlum og verklagi. 


Árangur okkar þegar kemur að straumleysismínútum var frábær og má í raun að segja að það hafi aldrei verið betra þegar kemur að almennum notendum og hvet ég ykkur til að skoða frammistöðuskýrslu okkar vel. 


Eftirspurn eftir orku er sífellt að aukast og á síðasta ári var meira magn orku flutt eftir kerfinu en nokkru sinni áður. Í desember fór raforkunotkun í kerfinu öllu yfir 2400 MW og var það afltoppur ársins 2018 og reyndar sá hæsti sem mælst hefur. 


Við sjáum framundan miklar breytingar með fjölbreyttari raforkuframleiðslu, nýjum iðnaði og með orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega raforku. Við gerum ráð fyrir enn frekari aukningu á orkuflutningi og stefnum í viðamiklar framkvæmdir til að mæta eftirspurninni. Það er áskorun að takast á við þessi verkefni án þess að koma þurfi til hækkunar gjaldskrár og geta um leið uppfyllt vaxandi kröfur um öryggi og framkvæmdahraða.


Kröfur samfélagsins og breytingar á orkumarkaðinum koma fram með ýmsum hætti. Viðskiptavinum Landsnets er að fjölga mikið og þarfir þeirra breytast mun hraðar en áður. Fyrirspurnir nýrra viðskiptavina hafa margfaldast. Þetta reynir mikið á t.d. í framkvæmdum sem eru háðar flóknum leyfisferlum. Þarfir viðskiptavinanna fyrir gagnsæjar upplýsingar og hraðar tengingar eru miklar og nauðsynlegt að þróa skilvirkari ferla sem mæta þeim. Í þessu sambandi þurfa fjölmargir aðilar að taka til hendinni.

Upplýsingagjöf okkar hefur aldrei verið meiri og við höfum tekið samtalið við alla þá sem vilja, á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og á fjölmörgum verkefna- og hagsmunaráðsfundum, samtal sem hefur skilað okkur betri lausnum og auknum skilningi þegar kemur að verkefnum á okkar vegum. 


Það eru spennandi tímar framundan, spennandi verkefni sem munu öll hafa það markmið að auka afhendingaröryggi, gagnsæi, sátt við umhverfi og náttúru, skilvirkni orkuviðskiptanna og um leið tryggja leiðina inn í framtíðina sem eins og allir vita verður rafmagnaðri enn áður.


Við hjá Landsneti

" Stjórnskipulagið okkar styður við hlutverk, stefnu og meginstarfsemina á skýran og markvissan hátt sem og þau loforð sem við höfum gefið viðskiptavinum og samfélaginu."

Sigrún Björk Jakobsdóttir

stjórnarformaður

Sigrún Björk var kosin formaður stjórnar Landsnets á aðalfundi 7. apríl 2016. Sigrún Björk hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka, stofnana og nefnda og hefur víðtæka reynslu af vettvangi ferðaþjónustu og sveitarstjórnarmála.

Ómar Benediktsson

stjórnarmaður

Ómar var kjörinn í stjórn Landsnets 29. mars 2012. Hann hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, bæði innlendra og erlendra, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

Svana Helen Björnsdóttir

stjórnarmaður

Svana var fyrst kjörin í stjórn Landsnets 31. mars 2009. Hún hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

Svava Bjarnadóttir

stjórnarmaður

Svava var kjörin í stjórn Landsnets í júní 2018, áður hafði hún verið varamaður í stjórn. Hún hefur setið í stjórnum fjölmarga fyrirtækja og hefur víðtæka reynslu af stjórnun.

Ólafur Rúnar Ólafsson

stjórnarmaður

Ólafur var kjörinn í stjórn Landsnet í júní 2018, áður hafði hann verið varamaður í stjórn. Hann hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórastiginu og hefur verið stundakennari við Háskólann á Akureyri.
Fréttayfirlit.svg

Árið í hnotskurn...

" Við byggjum flutningskerfi rafokru til framtíðar og tryggjum jafnt aðgengi íbúa að öruggu rafmagni með skilvirkan rekstur og fjárfestingar að leiðarljósi." 

Framkvæmdastjóri - mynd

Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri:

„Fyrir stjórnunarsvið var árið að mörgu leyti krefjandi en skemmtilegt. Við tókumst á við gjörbreytt umhverfi varðandi fyrirspurnir og erindi varðandi tengingar við flutningskerfið, ásamt því að halda utan um tvö stór stefnuverkefni sem snúast um að gera fyrirtækið tilbúið að takast á við þær breytingar sem eru að gerast í orkugeiranum. Við vorum einnig að vinna í verkefninu kolefnishlutlaust Landsnet 2030 í samfélagsábyrgð, utanumhald utan um innleiðingu straumlínustjórnunar, en við sem fyrirtæki náðum frábærum árangri á síðasta ári í að gera fyrirtækið meira LEAN.“

Stjórnunarsvið veitir þjónustu þvert á fyrirtækið og sinnir viðskiptavinum Landsnets. Sviðið er vettvangur sameiginlegrar þjónustu innan Landsnets, vinnur að verkefnum sem stuðla að aukinni samlegð, skilvirkni og samvinnu, heldur utan um samfélagsábyrgð og sinnir ytri og innri samskiptum.

Framkvæmdastjóri - mynd

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri:

„Á fjármálasviðinu var lögð áhersla á að hrísla stefnu félagsins niður í alla málaflokka sviðsins með sérstökum áhersluverkefnum sem studdu við stefnuna. Aukið var við fjárhagslegar greiningar og lögð áhersla á að auka skilning almennings á hlutverki, skyldum, þörfum og gagnsæi við ákvarðanatöku með bættu samráði. Á síðasta ári var samvinna þvert á fyrirtækið við gerð áhættumats fyrir fyrirtækið í heild sinni. Markmiðið er að gera áhættumat að sjálfsögðum hluta allrar ákvarðanatöku í starfseminni. Unnið var að bættum innkaupaferlum, gerð rammasamninga og áhættustýrðu birgjamati. Þá eru birgða- og lagermál félagsins í gagngerum endurbótum. Á árinu var unnið frekar að notkun aðferðafræði LEAN í stýringu verkefna og þróun umbótastarfs á öllum sviðum. Horft er til þess að auka hagkvæmni í rekstri og fjárfestingum félagsins með það að markmiði að halda jafnvægi í gjaldskrá gagnvart raforkunotendum ásamt því að skila lögbundinni arðsemi til eigenda félagsins."

Fjármálasvið ber ábyrgð á fjármálum Landsnets, reikningshaldi, fjárstýringu, innkaupum, stjórnendaupplýsingum, tekjumörkum, áætlanagerð, gerð spálíkana og áhættustjórnun félagsins. Hagrænar greiningar sem styðja við tekju- og gjaldskrárgreiningar, áreiðanleika spálíkana, eignastýringu fyrirtækisins og mat á fjárfestinga- og rekstrarákvörðunum heyra einnig undir sviðið sem og rekstur fasteigna og mötuneytis.

Framkvæmdastjóri - mynd

Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri:

„Meginhlutverk okkar er að tryggja örugga afhendingu raforku til allra notenda í kerfinu og það verkefni gekk framar vonum á síðasta ári. Truflanir voru færri og viðbrögðin við þeim góð. Vinna með viðskiptavinum við gerð rekstrargátlista, faglegur undirbúningur viðhaldsverka og þróun snjallnets skilar árangri í bættu viðbragði og lágmörkun straumleysis. Einnig var veðurfar hagstætt og komumst við hjá langvarandi bilunum. Tölvu- og netöryggi verður sífellt mikilvægara í kerfi sem reiðir sig á fjarskipti og stafræna tækni í auknum mæli. Stafrænni þróun fylgja tækifæri en líka nýjar áhættur sem bregðast þarf við. Netvá fer vaxandi og við munum leggja áherslu á að styrkja tæknilegu öryggisumgjörðina okkar enn frekar á næstu misserum.“

Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á rekstri flutningskerfis Landsnets og kerfisstjórnun. Það tryggir að jafnvægi sé á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu og að nægjanlegt reiðuafl sé fyrir hendi í raforkukerfinu. Kerfisstjórnun samræmir áætlanir um rof rekstrareininga sem hafa áhrif á rekstur raforkukerfisins, stýrir kerfisuppbyggingu eftir að rekstrartruflanir hafa átt sér stað, skerðir álag hjá notendum ef þörf krefur og bregst við flutningstakmörkunum. Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á upplýsingakerfum Landsnets og er miðstöð snjallnetsvæðingar raforkukerfisins.

Framkvæmdastjóri - mynd

Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri:

„Framkvæmdaárið 2018 var nokkuð óvenjulegt. Seinkun varð á stórum framkvæmdum og mun minna var fjárfest í styrkingu flutningskerfisins en áformað var, en framgangur í skipulags- og leyfismálum hafði þar veruleg áhrif. Tvö framkvæmdaverk bættust við á árinu sem sneru að tengingu nýrra viðskiptavina og tókst að ljúka báðum verkefnum með tengingu til þessara viðskiptavina á mettíma með samstilltu átaki starfsmanna Landsnets og samstarfsaðila. Endurbætur og viðhald á mannvirkjum og búnaði flutningskerfisins gekk vel á árinu sem og viðbrögð við þeim frávikum sem komu upp. Bilanir vegna veðurs hafa aldrei verið færri ef frá er talið árið 2010 og vegna bilana í flutningskerfinu hefur aldrei verið minna frá stofnun Landsnets.“

Framkvæmda- og rekstrarsvið heldur utan um og stýrir öllum framkvæmdum í flutningskerfi Landsnets, hvort sem þær eru unnar af starfsmönnum fyrirtækisins eða verktökum. Sviðið hefur einnig umsjón með viðhaldi, eftirliti og viðgerðum á flutningsvirkjum Landsnets og þar er mat á ástandi flutningskerfisins meðal lykilverkefna.

Framkvæmdastjóri - mynd

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri:

"Lykilorðin á þróunartæknisviði árið 2018 eru undirbúningur, samráð, rannsóknir, stafræn þróun og vinna við kerfisáætlun. Á árinu lauk undirbúningi vegna Kröflulínu 3 sem er fyrsta skrefið í endurnýjun á meginflutningskerfinu á byggðalínusvæðinu. Nýtt tengivirki á Hnjúkum var hannað og tekið í rekstur og er það fyrsta tengivirkið okkar sem byggir á nýrri tækni í stafrænni þróun. Mikil vinna var lögð í kerfisáætlun og var lagt upp með breytt verklag, bæði við gerð áætlunarinnar og þegar kom að kynningarferlinu, og mæltist það vel fyrir. Samþykkt Orkustofnunar var svo mikilvægur áfangi en með henni fengu nokkrar lykilframkvæmdir okkar leyfi Orkustofnunar. Samtali og samráði var haldið áfram á árinu og voru nokkur verkefnaráð í tengslum við einstök verkefni og hagsmunaráð sett á laggirnar og hefur slíkt samtal aukið skilning og þekkingu á milli ólíkra hópa".

Þróunar- og tæknisvið vinnur áætlanir um uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku fyrir allar framkvæmdir á vegum Landsnets. Sviðið stýrir rannsóknum, umhverfismati og undirbúningsverkum sem nauðsynleg eru til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Innan sviðsins er tæknisetur sem undirbýr framkvæmdir og veitir tækniþjónustu þvert á svið.

Skipurit Landsnets

Landsnet-skipuriti.svg

Valka Jónsdóttir mannauðsstjóri:

  „Að vera mannauðsstjóri í fyrirtæki eins og Landsneti er ótrúlega skemmtilegt en jafnfram krefjandi. Árið var fullt af áskorunum, tækifærum og viðurkenningum fyrir okkar störf, m.a. fengum við menntasprota atvinnulífsins og gullmerki jafnlaunavottunar PWC, viðurkenningar sem skipta okkur miklu máli.“

Í árslok 2018 voru stöðugildi, miðað við heilsársstörf, samtals 120, sem er sami fjöldi og árið áður. Alls byrjuðu fimm nýir starfsmenn hjá okkur á árinu og þrír hættu, þar af einn vegna aldurs.  Við höfum verið að undirbúa okkur fyrir breytingar til að koma til móts við hækkandi starfs- og lífaldur hjá fyrirtækinu, með kortlagningu þekkingar og skipulögðu mannafla- og ráðningarferli.

 


Hjá okkur er aldur starfsfólks mjög fjölbreyttur og við höfum notið góðs af því þar sem mikil og fjölbreytt reynsla hefur verið að safnast hjá okkur á síðastliðnum árum. 

Mikilvægt er að við bregðumst við þessu þar sem gera má ráð fyrir að nærri fimmtungur starfsmanna láti af störfum vegna aldurs á næstu 4-7 árum. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir okkur þar sem við erum að sækja inn nýja þekkingu af markaðnum og tengjum hana við áratugareynslu og þekkingu starfsmanna hér innanhúss.
 

Það sem við teljum afar jákvætt við háan aldur starfsmanna er sú staðreynd að meðalstarfsaldur hjá okkur er tæplega 11 ár. Þetta gefur okkur vísbendingu um að verðmæt þekking er að skapast í stöðugu umhverfi sem síðan er hægt að flytja yfir til nýrra starfsmanna.

 
Kynjaskipting á vinnustaðnum í gegnum árin yfir fyrirtækið í heild hefur haldist nokkuð óbreytt en við höfum það markmið að fjölga konum innan vinnustaðarins til að auka fjölbreytileika í hópnum okkar. Við viljum vekja meiri athygli kvenna á iðnaðarstörfum eins og rafvirkjun, rafveituvirkjun og háskólafögum er tengjast rafmagni og ná þannig að jafna út kynjahlutföll innan ákveðinna greina hjá okkur til lengri tíma.

Kynjaskipting hjá stjórnendum í fyrirtækinu er mun jafnari samanborið við vinnustaðinn í heild sinni. Í gegnum árin hefur hlutur kvenna í stjórnun hjá okkur aukist og það er markmið okkar að bæta okkur á þessu sviði. Við höfum náð árangri í hópi millistjórnenda þar sem kynjahlutfall milli karla og kvenna er orðið jafnt.

Kynjaskiptingin á vinnustaðnum er mjög fjölbreytt eftir því hvaða störf eru skoðuð. Í þessu felast mörg spennandi tækifæri fyrir okkur og verða þau verkefni vafalaust með þeim stærri á komandi árum hjá okkur.

Á hverju ári tökum við háskólanema og ungmenni til sumarstarfa hjá okkur. Á árinu fengum við inn 15 háskólanema. Fyrir okkur er mikilvægt að nemarnir sem koma til að starfa hjá okkur fái krefjandi og í senn hagnýt verkefni sem tengjast því fagi sem þau eru að sækja í háskólanum. Til viðbótar við háskólanemana réðum við 24 ungmenni sem er hluti af okkar samfélagslegu ábyrgð.

Á árinu komu einnig nemendur úr Háskólanum í Reykjavík sem unnu hjá okkur áfangatengd verkefni eða lokaverkefni. Samstarfið við þau skiptir okkur miklu máli þar sem í þessu samstarfi er fólgið tækifæri fyrir okkur til að kynna þau fyrir Landsneti og okkar hlutverki.

Ólafur Kári Júlíusson, mannauðssérfræðingur:

 „Þjálfun, námskeið og endurmenntun eru ekki hlutir sem við viljum vinna sem átaksverkefni. Árið 2017 settum við af stað verkefni í tengslum við þjálfun og fræðslu og það verkefni hefur gengið vonum framar. Við viljum vera framúrskarandi fyrirtæki í þjálfun og því leggjum við mikla áherslu á stöðugar umbætur í þjálfunarmálum sem og að vita hvenær þjálfun og endurmenntun er lausn. Þannig næst árangurinn og ég tel að netþjónustan okkar og stjórnstöð séu fyrirmyndardæmi á því sviði.“

 Við erum þekkingarfyrirtæki og því lögð áhersla á að hafa sérvalið fólk á öllum stöðum. Stærstur hluti starfsfólks hefur lokið háskólanámi, stærstur hluti þeirra á sviði verkfræði en þar á eftir koma starfsmenn netþjónustunnar sem flestir eru menntaðir á sviði rafvirkjunar og rafveituvirkjunar.
 

Árið 2017 lögðum við að af stað með áætlun um þjálfun starfsmanna sem skilaði okkur þeim árangri að fleira starfsfólk sótti sí- og endurmenntun á vegum vinnustaðarins. Þetta verkefni skilaði sér í verðlaunum Samtaka atvinnulífsins: „Menntasproti ársins 2018“.
 

Á árinu 2018 var hvergi slegið af heldur var bætt í. Unnið var með starfsfólki okkar í þarfagreiningum fyrir þjálfun auk þess sem farið var að vinna þekkingarfylki fyrir sviðin okkar. Þar að auki hófst nánara samstarf milli mannauðs og annarra sviða um bestun þjálfunar. Netþjónusta og stjórnstöð hafa náð framúrskarandi árangri í þjálfunarmálum og eru í dag fyrirmyndir innan vinnustaðarins. 

Starfsmenn netþjónustu hafa verið virkir þátttakendur í fræðsluúttektum og þannig hefur verið hægt að koma til móts við þarfir þess hóps með skýrum og afmörkuðum markmiðum. Samstarf við Rafmennt, björgunarskóla Landsbjargar, og aðra fagaðila er eitt af því sem þessi samvinna hefur leitt af sér. 

Stjórnstöð hefur á sama hátt sett sér skýr markmið varðandi þjálfun, skipulagt hermisþjálfun nokkur ár fram í tímann, endurbætt þjálfun nýliða í stjórnstöð og komið upp skipulagi þannig að þjálfun er að verða sífellt meira LEAN-vædd. Þjálfun stjórnstöðvar er því orðin þannig að starfsfólk fær rétta þjálfun á réttum tíma út frá þörfum og markmiðum allra starfsmanna.

 Við erum þó ekki einungis að þjálfa okkar starfsfólk heldur er okkar fólk líka að þjálfa og kenna; bæði hér innanhúss og úti í skólum. Okkar fólk hefur tekið að sér kennslu á háskólastigi og í iðngreinum, en það er eitt af því sem við hvetjum starfsfólk til. Þannig náum við að miðla þekkingu og reynslu sem Landsnet hefur skapað í gegnum árin.
 

Við munum halda áfram að vinna með samstarfsaðilum; Endurmenntun Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Rafmennt, iðn- og tækniskólum á landinu, björgunarskóla Landsbjargar og öðrum sérfræðingum á vinnumarkaðnum. 

Aðgerðir í tengslum við einelti, áreitni og ofbeldi

 Við uppfærðum stefnu okkar varðandi einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað og sköpuðum markvissan farveg fyrir þau mál hér innanhúss. Þá sinntum við einnig fræðslu um þessi málefni fyrir starfsfólk, m.a. með erindum um #metoo, vinnustaðaeinelti og áreitni. Við uppfærðum jafnréttisáætlun okkar og aðgerðaáætlun henni tengda auk þess að hefja mælingar í reglubundinni vinnustaðagreiningu fyrir þessi mikilvægu atriði.

Vinnustaðagreining

Á árinu 2016 var ákveðið að leggja upp með vinnustaðagreiningu árlega til að geta fylgst betur með þróun mannauðsmála. Vinnustaðagreining er ítarleg greining á styrkleikum og áskorun vinnustaðarins og dregur fram þau atriði sem er mikilvægast fyrir stjórnendur að vinna með til að skapa starfsfólki hvetjandi starfsumhverfi. Markmiðið er að draga fram helstu og mikilvægustu mál í innra umhverfi vinnustaðarins.

Starfsánægja

Árið 2018 hélt starfsánægja áfram að aukast og er mjög nálægt sögulegu hámarki vinnustaðarins. Við munum áfram leggja okkur fram um að hlúa að góðu, öruggu og jákvæðu starfsumhverfi.

Innleiðing „púlssamtala“

Könnun árið 2016 leiddi í ljós að þörf var á því að bæta úr endurgjöf og hrósi til starfsmanna. Ráðist var í þær aðgerðir árið 2017 að endurhanna starfsmannasamtölin. Innleiðing hófst haustið 2017 og hélt áfram árið 2018. Púlssamtölin gera stjórnendum kleift að skipuleggja snörp og skipulögð viðtöl við starfsmenn nokkrum sinnum á ári, þar sem hægt er að safna upplýsingum markvisst um atriði eins og væntingar, samskipti innan vinnustaðarins sem og að veita viðkomandi endurgjöf varðandi frammistöðu í starfi. Árangurinn fór langt fram út væntingum okkar, sannkallað hástökk og nú leggjum við áherslu á að viðhalda þessum reglulegu samtölum.

Gullmerki PWC og innleiðing jafnlaunastaðals ÍST 85/2012

Samkvæmt jafnréttislögum (10/2008) er vinnuveitendum með a.m.k. 25 starfsmenn á ársgrundvelli skylt að öðlast vottun á jafnlaunakerfi. Þessi vottun staðfestir að fyrirtækið uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85: Jafnlaunakerfi – kröfur og leiðbeiningar (ÍST 85). Á árinu 2018 hófst vinna við innleiðingu jafnlaunastaðals. Ein af kröfunum fyrir jafnlaunastaðal er að framkvæma launaúttekt til að kanna kynbundinn launamun innan vinnustaðarins. Unnið var að þessari úttekt í samstarfi við PWC og í framhaldi fengum við Gullmerki PWC en launamunur innan vinnustaðarins er 2,8%. Skýringarhlutfall greiningarinnar var 94%, sem þykir mjög hátt.

Við erum virkilega stolt af þeirri staðreynd að Landsnet er farið að lifa gildin sín, Samvinna, Virðing og Ábyrgð. Við höfum náð þeim árangri að spegla þessi gildi í flestu sem við tökum okkur fyrir hendur og hefur sá árangur ávallt haldist í hendur við þátttöku og framlag starfsfólks vinnustaðarins.

Eigendur

Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.


Stefnan

Jórunn Gunnarsdóttir verkefnastjóri innri þjónustu: 

„Rafvædd framtíð í takt við samfélagið“ er kjarninn í framtíðarsýn okkar. Við erum þjónustufyrirtæki og leggjum metnað okkar í að gera vel, bæði inn og út á við.“

Nútímasamfélög reiða sig í æ ríkari mæli á örugga afhendingu raforku. Við höfum sett okkur það markmið að tryggja bæði örugga afhendingu á raforku til framtíðar og viðhalda jafnvægi milli framleiðslu og notkunar. Við ætlum að ná eins breiðri sátt og mögulegt er um þær leiðir sem farnar verða, taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma og sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna. Jafnframt höfum við einsett okkur að stuðla að heilbrigðu markaðsumhverfi á raforkumarkaði og hagkvæmri nýtingu fjármuna.

Við erum ábyrgt og framsækið þjónustufyrirtæki með öfluga liðsheild starfsfólks, sterka samfélagsvitund og stefnum að því að vera í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.

Hlutverk

Hlutverk okkar er að tryggja hagkvæma uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins en örugg og ótrufluð raforka er ein af meginstoðum nútímasamfélags. Þá ber okkur einnig að sjá til þess að jafnvægi sé á hverjum tíma í raforkukerfinu á milli framboðs og eftirspurnar rafmagns.

HlutverkÖryggi.svg

Framtíðarsýn

„Rafvædd framtíð í takt við samfélagið“ er kjarninn í framtíðarsýn okkar. Nútímasamfélög reiða sig í æ ríkari mæli á örugga afhendingu raforku. Við höfum sett okkur það markmið að tryggja bæði örugga afhendingu á raforku til framtíðar og viðhalda jafnvægi milli framleiðslu og notkunar.

Við ætlum að ná eins breiðri sátt og mögulegt er um þær leiðir sem farnar verða, taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma og sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna. Jafnframt höfum við einsett okkur að stuðla að heilbrigðu markaðsumhverfi á raforkumarkaði og hagkvæmri nýtingu fjármuna.

Gildi

Gildin okkar eru ábyrgð, samvinna og virðing og er þeim ætlað að vera leiðarljós okkar, bæði í samskiptum við viðskiptavini félagsins og okkar á milli. Þau móta fyrirtækjamenningu okkar, viðhorf og hegðun starfsfólks og styðja við fagmennsku og skilvirka ákvarðanatöku.

Stefnuloforð

Stefnan okkar kristallast í sex loforðum til samfélagsins um öruggt rafmagn og gæði og öryggi flutningskerfisins til framtíðar, í sátt við samfélag og umhverfi, skilvirkan rekstur, upplýsta umræðu og markvissa stjórnun og skipulag. Loforðin eru:

Öruggt rafmagn – gæði og öryggi flutningskerfisins til framtíðar

Við ætlum að stuðla að því að þegnar samfélagsins, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, hafi á hverjum tíma aðgang að rafmagni í því magni og þeim gæðum sem þörf er á. Forgangsáherslur til framtíðar eru skilgreindar og þau viðmið sem unnið er eftir varðandi áreiðanleika, öryggi og gæði. Við vinnum að því að ná breiðri sátt um forsendur framkvæmda og fjárfestinga.

Í sátt við samfélag og umhverfi

Mikilvægt er að sátt ríki í samfélaginu um hlutverk og áherslur fyrirtækisins og að skilningur sé fyrir því að flutningskerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Við vinnum að því að skapa sátt um hlutverk, starfsemi og mikilvægi Landsnets sem eins af burðarásum samfélagsins. Áhersla er lögð á samfélagsábyrgð sem er samtvinnuð stefnu félagsins. Við eigum frumkvæði að stöðugu samtali við hagsmunaaðila sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Við uppbyggingu og rekstur flutningskerfisins eru óæskileg áhrif á umhverfið lágmörkuð.

Góð nýting fjármuna – skilvirkur rekstur

Styrking flutningskerfis og áhersla á útrýmingu flöskuhálsa stuðlar að heilbrigðu fjárfestingaumhverfi fyrir aðila á orkumarkaði og minni sóun í raforkugeiranum í heild. Áherslan er á flutningsnetið „frá vöggu til grafar“ í ákvörðunum um fjárfestingar og rekstur og tekið mið af þjóðhagslegum hagsmunum. Við förum vel með þá fjármuni sem fyrirtækinu er trúað fyrir og sýnum ráðdeild, kostnaðarvitund og hagsýni við uppbyggingu og rekstur flutningskerfa. 

Skýr ímynd

Við viljum byggja upp skýra ímynd sem tengist fagmennsku, trausti og samfélagsábyrgð. Áhersla er lögð á að starfa sem nútímalegt og framsækið fyrirtæki sem skoðar ólíkar lausnir með opnum huga og með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Okkur er umhugað um að upplýsingagjöf sé ítarleg, auðskiljanleg, heiðarleg og hreinskilin.

Markviss stjórnun og skipulag

Stjórnskipulag styður við hlutverk, stefnu og meginstarfsemi fyrirtækisins á skýran og markvissan hátt sem og þau loforð sem við gefum viðskiptavinum og samfélaginu. Áhersla er lögð á einfalt og skilvirkt skipulag með sterkum meginstoðum og skýrum hlutverkum þar sem ferli mála er skoðað á heildstæðan hátt. Samhliða er lögð áhersla á stöðugar umbætur til að einfalda ferla, auka skilvirkni og bæta hagkvæmni almennt. Við beitum skipulögðum starfsháttum og vinnum að stöðugum umbótum þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og uppfyllum viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni.

Góður vinnustaður

Við berum umhyggju fyrir sérhverjum starfsmanni og veitum honum tækifæri til að takast á við spennandi verkefni og þróast í faglegu og metnaðarfullu umhverfi. Okkur er umhugað um að skapa góðan vinnustað þar sem menning og samskipti einkennast af gildum fyrirtækisins og starfsfólk fær tækifæri til að þróast og dafna. Þjónustuhugsun er ríkjandi og umhyggja fyrir þörfum viðskiptavina, starfsfólks, samfélagsins og umhverfisins. Stöðugt er unnið að heilsuvernd, persónu- og rekstraröryggi og lögð áhersla á að starfsfólk hafi sameiginlega sýn á gildi, tilgang og hlutverk Landsnets.