Starfsemin

Rekstur og framkvæmdir

Gnýr Guðmundsson verkefnastjóri kerfisáætlunar:

 „Vinnan við kerfisáætlun gekk mjög vel og var gaman að fá tækifæri til að fara hringinn með áætlunina og taka spjall um forsendur og leiðir – það skilaði okkur betri áætlun.“ 

Á árinu var farið í breytingar á vinnu við gerð kerfisáætlunar, í kjölfarið á synjun Orkustofnunar á kerfisáætlun 2016–2025. „Örugg endurnýjanleg orka fyrir þig“ var titillinn á kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027.

Helsta breytingin var að sviðsmyndir um raforkunotkun frá Raforkuhópi orkuspárnefndar voru notaðar sem grunnforsendur og umfjöllun um jarðstrengi aukin til muna. Bætt var í umfjöllun um framtíðarþróun flutningsþarfar, ásamt því að mikið var lagt í umfjöllun um hagræn áhrif uppbyggingar flutningskerfisins og áhrif fjárfestinga á gjaldskrá.

Einnig tók framkvæmdaáætlunin miklum breytingum en umfang verkefnalýsingar hefur aukist til muna og innihélt hún nú nákvæmar lýsingar á þeim verkefnum sem ætlunin er að framkvæma á næstu þremur árum.

Í kjölfar útgáfu skýrslunnar voru haldnir kynningarfundir á fimm stöðum um landið þar sem efni hennar var kynnt og að því loknu var boðið upp á aðgengi að sérfræðingateyminu sem stóð að baki gerð kerfisáætlunar. Mjög vel var tekið í þessa nýbreytni og skilaði það sér í markvissum og góðum umsögnum um kerfisáætlun. Í kjölfar umsagnarferlis var brugðist við innkomnum athugasemdum og uppfærð kerfisáætlun lögð til afgreiðslu hjá Orkustofnun í lok ágúst. 

Rannsóknir

Magni Þór Pálsson verkefnastjóri rannsókna:

 „Það skiptir okkur miklu máli að fara í vandaða rannsóknarvinnu þegar kemur að undirbúiningi verkefna og við hjá Landsneti leggjum metnað okkar í þá vinnu.“ 

Rannsóknaverkefni ársins skiptust í stórum dráttum í tvennt; kerfisrannsóknir og umhverfisrannsóknir.

Á sviði kerfisrannsókna var á árinu haldið áfram greiningum á raffræðilegum takmörkunum á lengdum jarðstrengja í flutningskerfinu, einkum í 220 kV kerfinu á SV-horninu og í tengslum við fyrirhugaðar styrkingar á flutningskerfinu á Vestfjörðum.

Eins og fyrri ár var unnið að kerfisgreiningum í landshlutakerfum raforku, m.a. á Suðurlandi og NA-landi. Markmiðið með slíkum greiningum er að auðvelda okkur að taka ákvörðun um hvaða framkvæmdir innan viðkomandi svæða sé skynsamlegt að ráðast í til þess að styðja við framtíðaruppbyggingu kerfisins.

Í umhverfisrannsóknunum var unnið að þróun aðferða til að meta umfang áflugs fugla á loftlínur. Gengnir voru nokkrir línukaflar og vísbendingum um áflug safnað, auk þess sem myndavélavöktun fór fram á nokkrum stöðum. Ísingarmælingar fóru fram með hefðbundnum hætti og unnið var áfram í verkefni þar sem fylgst er með varmabúskap umhverfis jarðstrengi með tilliti til mismunandi fylliefna.

Í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var unnið að verkefni sem hefur það að markmiði að meta umhverfiskostnað loftlína. Skortur hefur verið á aðferðafræði til að meta hann og er það von Landsnets að niðurstöður þessa verkefnis veiti verðmætt innlegg til þess að bæta úr því.

Á alþjóðlegum vettvangi höfum við verið í náinni samvinnu við önnur flutningsfyrirtæki, einkum á Norðurlöndunum. Rannsóknarsamvinna með háskólum, rannsóknastofnunum og öðrum orkufyrirtækjum er afar mikilvæg fyrir fyrirtæki eins og Landsnet.

Undirbúningsverkefni

Árni Jón Elíasson verkefnastjóri undirbúnings fjárfestingarverka:

 „Það eru spennandi tímar framundan og við erum með stór verkefni í undirbúningi sem öll miða að því að styrkja kerfið og koma okkur hraðar inn í rafvædda framtíð.“ 

Rúmlega 30 undirbúningsverkefni voru í vinnslu á árinu 2018 og lauk vinnu við 13 þeirra. Þar má nefna breytingar á tengivirkjum á Eyvindará, Eskifirði og Stuðlum í Reyðarfirði ásamt strengverkefnum sem öll eru hluti af spennuhækkun svonefnds Austfjarðahrings í 132 kV. Ný 66 kV tenging var undirbúin frá Eskifirði til Neskaupstaðar, nýr rofi á Vogaskeiði við Stykkishólm, nýtt úttak á Flúðum, stækkun tengivirkis á Fitjum á Reykjanesi, stækkun tengivirkis á Írafossi o.fl.

Stærstu verkefnin sem voru í vinnslu en var ekki lokið í árslok voru undirbúningur að lagningu nýrrar 220 kV línu milli Akureyrar og Hólasands ásamt nýju tengivirki á Hólasandi í Skútustaðahreppi og stækkun tengivirkis á Akureyri. Einnig má nefna gerð umhverfismats fyrir Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesi.

 

Unnur Helga Kristjánsdóttir yfirmaður verkefnastjórnunar framkvæmda:

 „Framkvæmdaárið var ár styrkinga og undirbúningsverkefna fyrir árið sem er framundan og erum við vel í stakk búin og full tilhlökkunar að takast við þær áskoranir sem eru framundan.“ 

Fjárfestingar í flutningskerfinu námu rétt tæpum 3 milljörðum íslenskra króna á árinu sem var einungis um þriðjungur áætlaðra fjárfestinga ársins. Forsendubreytingar og hægari framgangur í skipulags- og leyfismálum en áætlað hafði verið eru meginástæður þessara frávika. Fjárfestingarnar voru jafnframt umtalsvert lægri en árið áður eða um 40% af fjárfestingarkostnaði fyrra árs og hafa ekki verið lægri síðan 2011. 

Breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið

Þórarinn Bjarnason verkefnastjóri: 

  „Við höfum um langt skeið verið að vinna að undirbúningi að breytingum á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið í tengslum við byggðaþróun og fyrirhugaða uppbyggingu og sjáum nú vonandi bráðlega fyrir endann á nokkrum þeirra.“ 

Á árinu stóð til að hefja byggingu tveggja nýrra loftlína, Lyklafellslínu 1 frá fyrirhuguðu nýju tengivirki við Lyklafell að Straumsvík og Ísallínu 3 frá tengivirkinu við Hamranes að Straumsvík. Þessar framkvæmdir eru forsenda þess að hægt sé að rífa Hamraneslínu 1 og 2 frá Geithálsi að Hamranesi og Ísallínu 1 og 2 frá Hamranesi að álverinu í Straumsvík. 


Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi hins vegar í lok mars úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar og því var óhjákvæmilegt að framkvæmdum yrði frestað. Í kjölfar úrskurðarins hófst undirbúningur að færslu Hamraneslína 1 og 2, á um 2 km löngum kafla, þar sem þær liggja næst byggðinni við Hamranes í Hafnarfirði.

Kröflulína 3

Bygging Kröflulínu 3 er mikilvægur hluti í styrkingu flutningskerfisins og hefur undirbúningur hennar staðið yfir um árabil. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir í árslok 2017 og í upphafi árs var óskað eftir breytingum á skipulagi viðkomandi sveitarfélaga í samræmi við aðalvalkost í mati á umhverfisáhrifum. Áætlað er að breytingum á aðalskipulagi sveitarfélaganna ljúki á fyrstu mánuðum ársins 2019, sveitarfélögin veiti sín framkvæmdaleyfi í kjölfarið og framkvæmdir geti hafist á vormánuðum. Á árinu var unnið að útboðshönnun, öflun leyfa og samið var við alla landeigendur á línuleiðinni. 

Krafla, Bakki og Þeistareykir

Framkvæmdum við tengingar Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík og virkjunarinnar við flutningskerfið lauk árið 2017 en á árinu var unnið að ýmsum frágangsverkefnum við tengivirkin á Bakka, Þeistareykjum og í Kröflu, sem og Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1. 

Styrking flutningskerfisins á Snæfellsnesi

Unnið var að styrkingu flutningskerfisins á Snæfellsnesi á árinu en truflanir á svæðinu hafa verið tíðar undanfarin ár. Lagningu Grundarfjarðarlínu 2, 26 km langs 66 kV jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, lauk sumarið 2018. Unnið var að hönnun og innkaupum vegna nýs tengivirkis í Ólafsvík og áætlað að framkvæmdum við virkið ljúki árið 2019. 

Tenging stækkaðrar Búrfellsvirkjunar

Breytingum á núverandi tengivirki við Búrfell vegna tengingar nýrrar 100 MW virkjunar, Búrfellstöðvar II, við flutningskerfið og endurnýjun á stjórnbúnaði lauk fyrri hluta árs og var virkjunin formlega gangsett í júní. 

Ný tenging Sauðárkróks

Sauðárkrókur er nú tengdur flutningskerfinu með einungis einni rúmlega 40 ára gamalli tengingu en stefnt er að tvöföldun tengingarinnar sem mun jafnframt tvöfalda flutningsgetu og auka afhendingaröryggi á svæðinu.
 Unnið var að hönnun, leyfismálum og útboðsgagnagerð vegna nýrrar 66 kV, 24 km langrar jarðstrengstengingar milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Tengivirkinu í Varmahlíð verður breytt og nýtt virki byggt á Sauðárkróki fjær íbúðabyggð en núverandi virki. 

Jarðstrengur í Dýrafjarðargöngum

Við munum leggja jarðstreng í Dýrafjarðargöng á Vestfjörðum sem leysa mun af hólmi hluta Breiðadalslínu 1, þar sem aðstæður eru erfiðar og þannig auka öryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum. Framkvæmdir við göngin hófust árið 2017, innkaup jarðstrengs voru boðin út á árinu og verður hann lagður í ársbyrjun 2020 en jafnframt er áætlað að vinnu við göngin ljúki síðla það ár.

Tengivirki á Hvolsvelli

Bygging nýs tengivirkis á Hvolsvelli hefur verið í undirbúningi í allmörg ár en eldra virki var upphaflega byggt árið 1957. Framkvæmdir við nýtt tengivirki á Hvolsvelli hófust á árinu og lauk byggingarframkvæmdum að mestu á árinu. Uppsetning rafbúnaðar hófst í lok árs og áætlað er að virkið verði spennusett á vormánuðum 2019.

Tenging gagnavers að Hnjúkum

Nýjum tengistað, Hnjúkum, var bætt við flutningskerfið vegna tengingar nýs gagnavers í nágrenni Blönduóss. Lagður var nýr um 3 km langur, 132 kV jarðstrengur, Laxárvatnslína 2, frá tengivirki við Laxárvatn að iðnaðarsvæði við Hnjúka. Þá var einnig tekinn í notkun nýr rofareitur að Laxárvatni og spennir á Hnjúkum. Skammur tími gafst til undirbúnings og framkvæmda en mannvirkin voru spennusett rétt fyrir árslok. 

Fitjar

Tengivirkið að Fitjum var stækkað á árinu vegna aukinnar raforkunotkunar gagnavera á svæðinu. HS Veitur bættu við tveimur spennum og sáu um stækkun byggingarinnar en Landsnet útvegaði og sá um uppsetningu 132 kV rofabúnaðar ásamt tilheyrandi stjórn- og varnarbúnaði og var búnaðurinn spennusettur í september. 

Spennuhækkun á Austurlandi

Í kjölfar rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi hefur álag á flutningskerfið þar aukist mikið og til að bregðast við því og auka flutningsgetu er fyrirhugað að spennuhækka línur og tengivirki í svæðisbundna flutningskerfinu á Austfjörðum.

Byggð verða ný tengivirki á Eskifirði og Eyvindará og virkinu á Stuðlum breytt. Þá verður Eskifjarðarlína 1 lögð í jarðstreng á tæplega 2 km löngum kafla við tengivirkið á Eyvindará. Unnið var að hönnun, útboðsgagnagerð og leyfismálum á árinu og stefnt var að útboði helstu verkþátta í byrjun árs 2019.

Eskifjörður – Neskaupstaður

Neskaupstaður er tengdur með einni háspennulínu, Neskaupstaðarlínu 1, og er tvöföldun tengingarinnar í undirbúningi. Fyrirhuguð er lagning nýs 17 km langs, 66 kV jarðstrengs, Neskaupstaðarlínu 2, milli tengivirkja Landsnets á Eskifirði og Neskaupstað sem bæði verða stækkuð. Unnið var að hönnun, útboðsgagnagerð og leyfismálum á árinu og áætlað var að helstu verkþættir yrðu boðnir út vorið 2019.

Tengivirki Hnappavöllum

Vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Öræfa- og Suðursveit hefur Rarik óskað eftir nýjum afhendingarstað á byggðalínunni þar. Fyrirhugað tengivirki verður byggt í samvinnu við Rarik og unnið var að undirbúningi, útboðshönnun og leyfismálum á árinu. Framkvæmdir átti að bjóða út í ársbyrjun 2019.

Rekstur, viðhald, viðbragð og neyðarþjónusta netþjónustu

 Smári Jónasson forstöðumaður netþjónustu:

 „Nýja tækið okkar, sem fékk nafnið Krumlan, var tekið í notkun á árinu, tæki sem hefur breytt miklu fyrir okkur.“

Starfsstöðvar netþjónustunnar eru nú þrjár, í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri.
 
Rekstrarárið var undir áhrifum af framkvæmdaverkum, m.a. á Norðausturlandi, í Kröflu, á Þeistareykjum og á Bakka, auk framkvæmda á Hnjúkum við Blönduós. Einnig kom netþjónusta að flestum öðrum framkvæmdaverkum ársins í formi spennuvörslu, viðtökuprófana og rofastjórnar.

Rekstrarverkefni voru fjöldamörg og má þar nefna endurnýjun GIS-búnaðar í Hrauneyjum auk endurnýjunar á stjórnbúnaði. Töluvert var um endurnýjun á útstöðvum til fjarstýringa og spennar yfirfarnir. Mikil endurnýjun var gerð á upphengibúnaði á Kröflulínu 2 auk viðhalds á öðrum línum. Almenn viðhaldsverkefni vegna endurnýjunar eða lagfæringa á eldri búnaði voru einnig fjölmörg.

Nokkuð var um útleysingar og bilanir sem bregðast þurfti við, m.a. á Suðurnesjalínu 1 vegna eldinga sem hafði víðtæk áhrif á Suðurnesjum og er þetta annað árið í röð sem þetta gerist. Einnig varð bilun á Sultartangalínu 3 inni á Hrunaafrétti í febrúar sem mjög erfitt var að komast að og tók um tvo sólarhringa að koma tækjum á staðinn. Um 30 aðrar útleysingar voru á línum og er helsti orsakavaldur veðurálag, eldingar og hrörnun. Um 40 útleysingar urðu í tengivirkjum og flestar vegna bilunar í búnaði.

Netþjónusta hefur á árinu unnið markvisst að því að bæta skilvirkni í undirbúningi og skipulagningu verka, auk þess sem áfram er unnið að því að gera verkefnin sýnilegri með góðum mælikvörðum.

Mikið og gott framfaraskerf varð á árinu þegar tekið var í notkun nýtt kranatæki sem nota á við línuviðhald og viðgerðir. Tækið er af gerðinni John Deere Forwarder með ábyggðum krana og er fyrsta tækið í heiminum sem John Deere og kranaframleiðandinn Palfinger koma að. Voru það starfsmenn netþjónustu sem lögðu línurnar að þessu tæki eftir að hafa skoðað sambærilega smíði í Noregi. Tækið er áttahjóla og því með gott flot þegar farið er um viðkvæmt land auk þess sem olía í olíukerfi kranans og tækisins er af sérstakri og mjög umhverfisvænni tegund. Tækið var notað í verkefnum á haustmánuðum og kom mjög vel út.
 
Á árinu fór einnig fram endurnýjun á eldri bifreiðum sem tími var kominn á og var fyrsti rafbíllinn sem nota á við viðhald í tengivirkjum tekinn í notkun.

Framkvæmda- og rekstrarsvið auk netþjónustu hefur undanfarin sumur verið með sex háskóla- og rafiðnaðarnema sem hafa fengið tækifæri til að kynnast störfum sviðsins.

Einnig hefur sviðið séð um sumarvinnu unglinga hjá Landsneti og sinntu 27 sumarstarfsmenn umhirðu í kringum tengivirki og húsnæði auk fleiri minni verkefna sem þörf var á.

Rekstur flutningskerfisins

Ragnar Guðmannsson forstöðumaður stjórnstöðvar:

 „Við leggjum mikið upp úr þjálfun þar sem við þjálfum upp viðbragð okkar í truflunum og getu til að meta hratt aðstæður í raforkukerfinu sem tekur sífelldum breytingum. Undanfarið höfum við líka fókuserað á andlegu og mannlegu hliðina. Að þjálfa sig í að vera undirbúin þegar eitthvað gerist, það skiptir ekki síður máli. Það hjálpar okkur einnig hve mikil þróun hefur átt sér stað í staðbundnum kerfisvörnum og víðstýringum en þær eru orðnar býsna margar.“

Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins, að alltaf sé jafnvægi á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu, að samræma áætlanir um rof rekstrareininga vegna viðhalds og tryggja örugga uppbyggingu og lágmarka skerðingar í kjölfar truflana.

Rekstur allra upplýsingatæknikerfa, bæði vegna reksturs stjórnstöðvar og skrifstofukerfa í fyrirtækinu öllu, er á höndum kerfisstjórnunarsviðs ásamt þróun snjallnetslausna.

Straumlínustjórnun í rekstri

Á árinu hófst aukin straumlínustjórnun á sviðinu ásamt innleiðingu á fundatöflum með sýnilegum mælikvörðum og verkefnum. Þessi innleiðing hefur gengið vel og töluverður ávinningur hefur náðst nú þegar í gagnsæi og aukinni notkun mælikvarða þvert á sviðið og innan verkefnahópa. 

Hér getur þú séð hvernig við stóðum okkur á árinu - Frammistöðuskýrsla 2018.

 

Upplýsingatækni og fjarskipti

Ásmundur Bjarnason forstöðumaður upplýsingatækni: 

" Í haust lauk mikilvægri uppfærslu orkustjórnkerfisins frá General Electric sem staðið hefur yfir í 18 mánuði. Verkefnið stóðst bæði tíma- og kostnaðaráætlanir og eftir því var tekið hjá öðrum notendum sama kerfis í Evrópu og víðar hversu vel tókst til, en slíkar uppfærslur eru jafnan flóknar og áhættusamar. Umtalsverðar umbætur fylgja uppfærslunni, einkum sem snúa að öryggisumhverfi kerfisins en einnig hvaða möguleika við höfum til að stýra kerfinu. "

Undirbúningur á grænu ljósi

Árangur náðist í átaki okkar sem sneri að undirbúningi viðhaldsverka og viðgerða sem bar heitið „Rof og vinna á grænu ljósi“. Núna eru komnir ferlar og mælingar í daglegum rekstri sem tryggja að öll verk séu undirbúin skv. verklagi Landsnets sem stuðlar að bættu persónu- og kerfisöryggi.

Snjallnetsstýringar varna straumleysi

Nýjar snjallnetsstýringar voru teknar í virkni sem þróaðar voru í evrópska rannsóknarverkefninu MIGRATE og á árinu skiluðum við skýrslu í þessu stóra rannsóknarverkefni þar sem greint er frá helstu rannsóknarniðurstöðum sem snúa að víðstýringum í kerfi Landsnets. Nokkrir viðskiptavinir hafa komið að þessum stýringum, þar á meðal Ísal, Norðurál, Landsvirkjun og fiskbræðslufyrirtæki á Austurlandi. Breytingar voru jafnframt gerðar á fjarskiptahögun snjallnets og viðbragðstími lækkaður um helming (nú um 100 m/sek.). Fyrsta útgáfa snjallnets vegna ADC á Fitjum var tekin í notkun.

Kerfisprófanir og gangsetningar á Norðausturlandi

Mikilli vinnu var varið í kerfisprófanir vegna gangsetningar Þeistareykjavirkjunar og spennusetningar nýrra flutningsvirkja á Norðausturlandi frá Kröflu að Bakka. Sömuleiðis var aðkoma kerfisstjórnar þó nokkur vegna aukinnar afhendingar á Fitjum. Prófanirnar gengu vel og vöktu athygli í alþjóðlegu samhengi vegna sérstöðu íslenska kerfisins. Niðurstöður voru m.a. settar fram í greinarskrifum og kynningu á ráðstefnunni Geothermal Resources Council.

Spálíkön fyrir stjórnstöð

Í haust hófst verkefnið „Völva“ sem snýr að þróun spálíkana fyrir stjórnstöð. Markmiðið er að stjórnstöð hafi á hverjum tíma spá um rafmagnsnotkun, framleiðslu og aflflæði í kerfinu til næstu 1-3 sólarhringa og geti þannig undirbúið reksturinn og bætt enn frekar áhættustýringu með skilvirkari hætti.

MIGRATE

Landsnet er þátttakandi í evrópska rannsóknarverkefninu, MIGRATE, sem styrkt er úr Horizon 2020 rannsóknarsjóði Evrópusambandsins. Heildarstyrkur verkefnisins er um 2 milljarðar króna. Verkefnið er til fjögurra ára og hófst 2016. Alls taka 11 flutningsfyrirtæki, tveir framleiðendur og 11 háskólar þátt í verkefninu ásamt fjölda undirverktaka. Tilgangur verkefnisins er að þróa aðferðafræði og tækninýjungar til að auka rekstraröryggi, sveigjanleika og flutningsgetu í raforkukerfum í Evrópu sem styðja við aukningu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Okkar þáttur í verkefninu snýr að þróun og frumprófunum á nýjum víðstýringum til að takast á við vandamál í raforkukerfum með lágt tregðuvægi.

Fyrri hluti verkefnisins fól í sér að þróa nýja hugmyndafræði fyrir víðstýringar og nýta þá innviði í víðsjárkerfinu sem Landsnet hefur verið að byggja upp síðasta áratuginn. Í seinni hluta verkefnisins fengum við til liðs við okkur hagsmunaaðila til að frumprófa þessar nýju stýringar, sem m.a. fólu í sér hraða álagsstýringu álvera, hraðari niðurkeyrslu vatnsaflsvéla og hraða útleysingu skerðanlegra notenda. Markmiðið er að sýna fram á að hægt sé að takast á við þau vandamál sem fylgja auknu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa með aflrafeindatækni, með því að hanna og þróa hraðvirkar víðstýringar til að auka stöðugleika, rekstraröryggi og sveigjanleika í raforkukerfum.

Niðurstöður okkar hluta í verkefninu hafa lofað góðu þar sem sýnt hefur verið fram á ávinning þessara stýringa og hvernig rekstraröryggi og stöðugleiki hefur aukist með tilkomu þeirra. Niðurstöðurnar eru nú þegar farnar að vekja mikla athygli erlendis og voru m.a. kynntar á Cigre-ráðstefnu 2018. Landsnet mun halda áfram að þróa stýringar á komandi misserum og mun vinna að því að fá fleiri hagsmunaaðila í lið með sér til að bæta rekstraröryggi kerfisins enn frekar.


Öryggi, umhverfis- og gæðamál

Halldór Halldórsson öryggisstjóri:

 „Við erum stolt af því að ekkert fjarveruslys varð á árinu, það er nákvæmlega þannig sem við viljum hafa það. Hjá Landsneti er til staðar sterk öryggisvitund, árangur okkar á undanförnum árum er góður og fer stöðugt vaxandi.“

Okkar sýn og markmið er að ekkert slys verði í starfseminni. Öryggismál eru mikilvæg í okkar augum og ávallt í forgangi, enda er ekkert mikilvægara en að starfsmenn komist heilir heim bæði á sál og líkama.

Vottað öryggisstjórnkerfi

Landsnet er með vottað öryggisstjórnkerfi sem uppfyllir hinn alþjóðlega heilsu- og vinnuverndarstaðal OHSAS 18001. Sú menning sem staðallinn stendur fyrir er orðin að föstum starfsvenjum og menningu fyrirtækisins. Þannig tryggjum við að öryggis- og vinnuumhverfismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar, framkvæmdir, rekstur, val á verktökum og innkaup á vöru og þjónustu vegna starfseminnar. Sömu kröfur eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila.

Frábær árangur – samstillt átak starfsfólks

Ekkert fjarveruslys varð hjá starfsmönnum okkar á árinu og sami árangur náðist varðandi framkvæmda- og fjárfestingaverk.

Þjálfun starfsfólks í öryggismálum tekur mið af þeim áhættuþáttum sem starfsmenn eru útsettir fyrir. Áherslur ársins hafa verið fallvarnir, ljósbogavarnir og læsingar og beislun háskalegrar orku ásamt þjálfun í öruggum undirbúningi verka og framkvæmda.

Öryggishugsun í nýframkvæmdum

Ný verkefni voru framkvæmd á árinu sem höfðu það að markmiði að styðja við öryggismenningu starfsmanna. Á árinu var stefnan í öryggismálum rýnd og endurútgefin ásamt stefnumiðum og verkefnum til að styðja við stefnuna. Þar má helst nefna fræðsluáætlun byggða á áhættumati og útsettum áhættum starfsmanna. Einnig voru haldin námskeið og fræðsla tengd öryggismálum, öryggismenning er lærdómsmenning.

Landsnet – lykilinnviður í samfélaginu

Á árinu var gefið út nýtt skipulag fyrir neyðarstjórn sem byggir á SÁBF stjórnkerfi almannavarna. Á árinu tók fulltrúi Landsnets sæti í tengiliðahóp þjóðaröryggisráðs þar sem m.a. er unnið með stjórnvöldum við innleiðingu á þjóðaröryggisvísum. Náið samstarf og samskipti við stjórnvöld og hagsmunaaðila ásamt reglubundnum æfingum um viðbrögð í vá eru hluti af mikilvægu starfi neyðarstjórnar.

Alþjóðlegt samstarf í öryggismálum

Nordisk Berednings Forum (NordBER) er samstarfsvettvangur raforkuflutningsfyrirtækja og orkustofnana á Norðurlöndunum um rekstraröryggismál. Fulltrúar Íslands í NordBER tóku á árinu við forustuhlutverki ráðsins til 2 ára.

 

Engilráð Ósk Einarsdóttir verkefnastjóri gæðamála og samfélagsábyrgðar: 

 „Við hjá Landsneti leggjum áherslu á mikilvægi þess að Íslendingar hafi öruggt aðgengi að rafmagni og að brugðist sé hratt við þjónustubresti. Lögð er áhersla á faglega starfsemi þar sem stöðugt er verið að vinna að umbótum í rekstri og minnka áhættur.“

Á árinu 2018 var gert áhættumat á allri starfseminni og í kjölfarið voru skilgreindar áhættur tengdar við gæðaskjöl þannig að hægt væri að nálgast hverju sinni hvernig félagið væri að stýra áhættum.

Á árinu var aukin áhersla á LEAN-aðferðafræði hvað varðar umbótaverkefni þar sem lagt var upp með að skilgreina verkefni með þeirri aðferð og vinna í lotum. Áfram var unnið að betrumbótum hvað varðar töflufundi og má sjá afrakstur þess í vinnuumhverfinu þar sem sýnileg eru á þessum töflum þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni. 

Gæðastefna

Gæðastefnan var yfirfarin og skilgreindar voru áherslur fyrir gæðamál til ársins 2020 ásamt því að setja mælanleg markmið í starfseminni en þau eru endurskoðuð með hliðsjón af árangri og umbótum.

Vottanir

Á árinu fengum við vottun á nýja gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9001:2015 og umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001:2015 en helstu áherslubreytingar á milli staðlanna eru að lögð er meiri áhersla á áhættu- og hagsmunaaðilagreiningu, breytingastjórnun og ekki síst á mikilvægi forystu stjórnenda.

Tvisvar á ári koma óháðir aðilar og taka út stjórnunarkerfið okkar. Við erum með samþætt stjórnunarkerfi sem nær yfir stjórnun á gæða-, umhverfis- og rafmagnsöryggismálum og öryggi vinnuumhverfis. Samofin stjórnun þessara málaflokka skilar sér í betri samræmingu á vinnuferlum ásamt skilvirkari stjórnun hvað varðar umbætur og að ná settum markmiðum félagsins.

Stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla í starfseminni og er vottað samkvæmt alþjóðastöðlunum ISO 9001:2015 Gæðastjórnun, ISO 14001:2015 Umhverfisstjórnun, OHSAS 18001:2007 Öryggi, heilsa og vinnuvernd ásamt rafmagnsöryggi. Staðlar þessir eiga m.a. að tryggja að hugað sé að umbótum, umhverfismálum og öryggis- og heilbrigðismálum í öllum framkvæmdum, hvort sem það er í eigin rekstri eða hjá verktökum.

Samfélagsábyrgð

Við sýnum samfélagsábyrgð í verki með því að sinna hlutverki okkar sem flutningsfyrirtæki.

Árið 2018 var gefin út og samþykkt samfélagsábyrgðarstefna og er hún greind niður í þrjú áherslusvið; ábyrgir starfshættir, samfélag og umhverfi. Helstu áherslur með samfélagið er að hugað sé að jafnréttismálum og að uppbygging raforkukerfisins sé í takt við þarfir samfélagsins.

Áhersluþættir í ábyrgum starfsháttum er að leggja upp með opnu samtali við hagaðila og ábyrg vinnubrögð jafnt sem meðferð fjármuna. Þegar kemur að umhverfismálum eru áherslur á að útbúa áætlun sem miðar að því að félagið verði kolefnishlutlaust árið 2030 og að kolefnisfótspor sé mælt í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Frágangur vegna framkvæmda og viðhalds mannvirkja sé til fyrirmyndar og unnið sé að stöðugum umbótum í umhverfismálum.

Engin umhverfisóhöpp

Engin alvarleg umhverfisóhöpp urðu árið 2018 en stöðugt er unnið að umbótum í þeim efnum.

Umhverfisúttektir

Tvær umhverfisúttektir voru framkvæmdar á árinu en þær eru gerðar við framkvæmdalok allra fjárfestingaverkefna enda hluti af útboðsgögnum. Úttektirnar fóru fram með þátttöku hagsmunaaðila, m.a. fulltrúum eftirlitsstofnana, landeigenda og sveitarfélaga.

Grænt bókhald

Á árinu 2018 var tekið upp grænt bókhald hjá okkur og gefur það betri yfirsýn yfir þau umhverfislegu áhrif sem hlotist hafa af starfseminni og auðveldar það þannig vöktun á ýmsum þáttum í rekstrinum.

Kolefnishlutlaust Landsnet 2030

Eitt af stefnumarkmiðum okkar er að vera kolefnishlutlaust árið 2030. Út frá stefnumarkmiðunum okkar var sett af stað á árinu 2018 verkefnið kolefnishlutlaust Landsnet 2030 – aðgerðaáætlun. Markmið verkefnisins var að greina núverandi stöðu á þeim þáttum sem eru í útreikningi á kolefnisspori félagsins og greina hvaða losunarþættir eru ekki tilgreindir ásamt því að útbúa aðgerðaáætlun fyrir næstu árin um hvernig við ætlum að verða kolefnishlutlaust félag á árinu 2030.

Á árinu voru greind helstu umhverfisáhrif félagsins og settir voru saman vinnuhópar sem unnu að hugmyndum um hvernig félagið gæti stigið skerf í átt að kolefnishlutleysi. Stefnumörkun var síðan unnin með það að leiðarljósi að draga (markvisst) úr magni koltvísýrings sem myndast vegna starfseminnar og auka bindingu sem mótvægisaðgerð.

Þættirnir sem hafa áhrif á kolefnissporið voru greindir með umfang 1, 2 og 3. Greenhouse gas protocol staðlar skilgreina gróðurhúsalofttegundir í þrjú umföng sem eru umfang 1, umfang 2 og umfang 3. Umfang 1 er bein losun frá starfsemi og inniheldur þá losun sem til fellur vegna reksturs sem er í eigu eða er stýrt af Landsneti.

Kolefnisspor Landsnets 2018

Miðað við íslenska raforkukerfið hækkar kolefnisspor okkar um 16% milli áranna 2017 og 2018, ígildi 2018 var 7.493 tonn af koldíoxíði (CO2) samanborið við 6.451 tonn árið 2017. Í umfangi 1 er stærsti losunarþáttur félagsins leki á einangrunargasinu brennisteinshexaflúoríði (SF6), sem notað er sem einangrunarmiðill í rafbúnaði í tengivirkjum. Lekinn var mun meiri á árinu 2018 en árið 2017 sem orsakast m.a. af bilun sem var í einu tengivirki félagsins í byrjun árs. Framleiðsla á varaafli dróst saman á árinu vegna færri truflana í flutningskerfinu. Notkun á eldsneyti á bíla og tæki í eigu félagsins dróst lítillega saman á milli ára.

Í umfangi 2 eru flutningstöp stærsti losunarþátturinn. Á árinu 2018 jukust flutningstöp um 7% frá fyrra ári en ástæða þess er að flutningur á raforku jókst á milli ára og var hlutfall flutningstapa 1,96% af öllum flutningi árið 2018 en árið á undan voru flutningstöp 2,15% af heildarflutningi. Þegar kolefnisfótspor flutningstapa er reiknað er notast við íslensku orkukörfuna.

Flokkun úrgangs gekk vel á árinu og var flokkunarhlutfallið árið 2018 92% en sama hlutfall var 81% árið á undan. Úrgangur jókst þó á milli ára og þá vegna átaksverkefna sem farið var í á árinu, samvinna var góð og leitast var við að huga vel að flokkun úrgangs sem féll til í verkefnum.

Á árinu var farið í aðgerðir sem miðuðu að því að bæta úrgangsmál félagsins, skoðað var hvernig mætti standa betur að flokkun úrgangs og unnið að því að gera flokkunina einfalda og aðgengilegri. Kynning var haldin fyrir starfsfólk þar sem fjallað var um úrgangsmál félagsins og starfsfólk hvatt til að huga að flokkun. Fjöldi flugferða starfsmanna innanlands á árinu 2018 var svipaður og á árinu 2017.

 

Landsnet_losun.jpgKolefnisspor flutningskerfisins

Lokið var við greiningu á kolefnisspori flutningskerfisins á árinu. Greiningin fór fram með aðferðafræði vistferilsgreiningar sem nær yfir alla þætti framleiðslu, uppsetningu og rekstur flutningskerfisins yfir líftíma þess ásamt förgun að notkun lokinni. Niðurstaða líftímagreiningarinnar er sú að kolefnisfótspor flutningskerfisins er um 0,9 grömm CO2-ígildi/kWst og má rekja tæplega helming þess til flutningstapa í línum á rekstrartíma þeirra. Greiningin mun nýtast vel í umhverfisstjórnun, vistvænni hönnun og innkaupum, ásamt því að vera upplýsingamiðlun sem kemur öðrum aðilum á Íslandi til góða. Það getur t.d. komið sér vel fyrir íslensk fyrirtæki sem láta framkvæma vistferilsgreiningar á sínum framleiðsluvörum.


Viðskipti

Svandís Hlín Karlsdóttir forstöðumaður viðskiptaþjónustu og -þróunar:

„Mikil aukning er í fyrirspurnum um tengingu og breyttar þarfir. Slík þróun hefur óneitanlega verið áskorun fyrir fyrirtækið. Huga þarf að þörfum viðskiptavina okkar og breyttum kröfum um t.d. hraða á úrlausn mála og samninga samhliða því að viðhalda markmiðum okkar um gæði þjónustu og raforkuöryggi." 

Það hefur orðið mikil aukning í fyrirspurnum um tengingu við flutningskerfið. Okkur hafa borist jafn margar fyrirspurnir um tengingu á fyrstu sex mánuðum ársins og síðustu þremur árum þar á undan.

Almennt hefur orðið fimmföldun í innkomnum erindum frá árinu 2016. Þar sést að eðli fyrirspurna í ár varðar aflaukningu hjá núverandi viðskiptavinum, óskir um þátttöku í stýringu á flutningskerfinu og tengingu smærri notenda og vindafls við flutningskerfið.

Viðskiptavinum okkar er að fjölga og eru að sama skapi fjölbreyttari en áður. Tvö ný fyrirtæki bættust við í hóp viðskiptavina okkar á árinu 2018, það er Orka heimilanna sem selur raforku til almennings og svo Etix Everywhere Iceland sem rekur gagnaver á Blönduósi.

Við erum því stolt yfir því að sjá að við höfum verið að bæta okkur á milli ára í þjónustu við viðskiptavini okkar skv. niðurstöðum á þjónustukönnun. Þar stöndum við okkur betur en meðaltal allra fyrirtækja í gagnabanka Gallup.

Helstu viðskiptavinir okkar eru raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku, stórnotendur og sölufyrirtæki raforku.

 

Dreifiveitur

RARIK
HS Veitur
Norðurorka
Veitur
Orkubú Vestfjarða
Rafveita Reyðarfjarðar

Framleiðendur

Landsvirkjun

ON

HS Orka

Orkusalan

Fallorka

Íslensk orkumiðlun

Orka Heimilanna

Stórnotendur

ADC

Verne Holding

TDK Foil Iceland

ISAL

Alcoa

Elkem

Norðurál

PCC

Netmálar

Tveir netmálar tóku gildi á árinu, annar er um tæknilegar kröfur til vinnslueininga (D1), en þar er opnað fyrir möguleika fyrir t.d. vindmyllur til að tengjast flutningskerfinu. Hinn netmálinn er um kerfisframlag (D3) og varðar hlutdeild viðskiptavinar í kostnaði vegna tengingar við flutningskerfið.

Unnið er að því að auka aðgengi notenda að kerfisþjónustu svo hægt sé að auka samkeppni á markaði og sveigjanleika í flutningskerfinu. Drög að netmálanum hafa farið í umsagnarferli til viðskiptavina okkar og verið er að vinna með þær athugasemdir sem bárust. Yfirferð umsagna og uppfærsla á netmálanum hefur tekið lengri tíma en áætlað var en stefnt er á að senda netmálann til staðfestingar hjá Orkustofnun og gildistöku 2019.

Gjaldskrá

Vinna við endurskoðun á gjaldskrárstrúktúr Landsnets hófst á árinu 2017 og lauk fyrsta áfanga verkefnisins nú í ár. Fyrsti áfangi fól í sér samtal við viðskiptavini okkar um tækifæri og áskoranir á núverandi uppbyggingu gjaldskrárinnar og hvort hún þjóni tilgangi sínum og sé nægjanlega sveigjanleg fyrir framtíðaráskoranir. Undirbúningur á öðrum áfanga verkefnisins er hafinn og mun vinnan hefjast í byrjun mars með viðskiptavinum okkar þar sem unnið verður að forgangsröðun verkefna.

 

Raforkumarkaðurinn

Eitt af markmiðum okkar er að koma á laggirnar raforkumarkaði og við hófum þá vegferð á árinu með því að ráða erlenda ráðgjafa til að greina þær áskoranir sem íslenskur raforkumarkaður stendur frammi fyrir ásamt því að meta hvaða markaðslausnir eru raunsæjar til að takast á við þær. Á næsta ári er áætlað að taka viðtöl við söluaðila raforku til að vinna saman að lausn sem hentar þörfum og kröfum raforkumarkaðarins.

Upprunaábyrgðir raforku

Ragnar Sigurbjörnsson sérfræðingur/ sölumælingar:

„Mikil aukning hefur orðið á afskráningu upprunaábyrgða á Íslandi sem þýðir bara eitt - grænna bókhald fyrir íslensk heimili.“

Útgáfa upprunaábyrgða hefur verið í örum vexti frá 2015 og er nú svo komið að nánast öll framleiðsla vottaðra virkjana síðustu tveggja ára hefur verið gefin út eða nítján milljón skírteini hvort ár.

Á árinu bættist í hóp vottaðra virkjana Mjólká og vél tvö á Þeistareykjum. Eru allar virkjanir sem tengjast flutningskerfinu vottaðar. Mikið hefur verið um fyrirspurnir vegna vottunar smávirkjana á árinu sem er líklega vegna aukins verðmætis upprunaábyrgða.

Vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað hefur núgildandi uppbygging á gjaldskrá haft áhrif á t.d. samkeppni á útgáfu og afskráningu á Íslandi og erlendis, að því viðbættu hefur kostnaður okkar vegna útgáfu upprunábyrgða verið að breytast og endurspeglun í gjaldskrá því ekki gagnsæ. Þess vegna hefur verið unnið að breytingu á gjaldskrá upprunaábyrgða á árinu sem mun taka gildi frá og með 1. apríl þegar nýtt útgáfutímabil hefst.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróunina í útgáfu upprunaskírteina í MWst, fjölda afskráðra skírteina í MWst og verðlagsþróun þeirra.


Samfélagið

" Fjölmargir fundir voru haldnir með hagaðilum þar sem farið var yfir fjölbreytt viðfangsefni. Lagt var upp með nýtt verklag þar sem áhersla var á aukið samráð, samtal og upplýsingagjöf sem endurspeglaðist m.a. í breyttu verklagi við kerfisáætlun og á samfélagsmiðlum. Þetta hefur skilað sér í breyttu viðhorfi, þekkingu og trausti á fyrirtækinu."


Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi:

„Fyrir okkur skiptir máli að taka símann, svara spurningum og vera til staðar ef fólk þarf á upplýsingum að halda og síður að sýna frumkvæði þegar kemur að upplýsingagjöfinni – við höfum nefnilega sögu að segja.“

Á árinu var mikil vinna lögð í að skilgreina upplýsingagjöf, viðbrögð í neyðartilvikum og gerð var áætlun þar sem m.a. var farið yfir tímasetningar á viðbrögðum og tilkynningar forskráðar til að stytta viðbragðstímann. Áfram var unnið í að fjölga notendunum á Landsnetsappinu og samfélagsmiðlar, Facebook, Instagram og LinkedIn voru notaðir til fulls til upplýsingagjafar og til að eiga skoðanaskipti.

 
Landsnet var töluvert í fréttum á árinu og hefur jákvæðum fréttum af fyrirtækinu fjölgað mikið á milli ára og neikvæðum fréttum fækkað.

 
Fjölmargir lögðu leið sína í heimsókn á Gylfaflötina, nemendur, félagasamtök og nágrannar okkar í Grafarvoginum á árlegum Grafarvogsdegi. 


Elín Sigríður Óladóttir samráðsfulltrúi: 

„Almennt hafa verkefni sem snúa að samráði gengið vel og því fagnað að Landsnet skuli hafa frumkvæði að því að skapa vettvang fyrir opnar hreinskiptnar umræður sem einkennast af víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.“

Á árinu 2018 var víðtækt samráð á vegum Landsnets við hagaðila sem og samfélagið í heild sinni. Starfandi eru verkefnaráð í þremur svæðisbundnum verkefnum, Kröflulínu 3, Hólasandslínu 3 og Suðurnesjalínu 2, og stofnun tveggja verkefnaráða er í undirbúningi. Í verkefnaráðunum koma helstu hagsmunaaðilar, fyrir utan landeigendur, saman með reglulegu millibili.

Vinnan í ráðunum hefur gengið vel, haldnir hafa verið 15 fundir og farnar 6 skoðunarferðir og almennt verið góð stemning og andi á þessum vettvangi. Haldnir hafa verið upplýsinga- og kynningarfundir með landeigendum vegna þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan, bæði heima í héraði og á höfuðborgarsvæðinu. Hagsmunaráð Landsnets var sett á stofn árið 2018 en megintilgangur þess er að skapa vettvang umræðna milli hagaðila í samfélaginu um uppbyggingu raforkukerfisins.
 

Miðlun upplýsinga vegna samráðs hefur verið með margvíslegum hætti. Við erum ötul á Facebook og Instagram og á vefsíðu Landsnets er upplýsingum miðlað í gegnum sérstök svæði hvers verkefnis sem og upplýsingum um starfsemi hagsmunaráðs. 

Haldið verður áfram á sömu braut árið 2019, lögð áhersla á að efla og styðja við það sem nú þegar hefur verið sett af stað og leggja drög að enn víðtækara samráði með það að markmiði að ná sem bestri sátt í samfélaginu um framkvæmdir á vegum Landsnets


Flutningsmannvirkin

Flutningskerfið 2018

" Landsnet á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns og til flutningskerfis okkar teljast einnig öll helstu tengivirki á landinu. "

Hérlendis er eitt skilgreint flutningskerfi raforku og nokkur svæðisbundin kerfi, eða dreifiveitur. 

Flutningskerfið tekur við raforku beint frá aflstöðvum og flytur hana til stórnotenda og dreifiveitna. Allar virkjanir, sem eru 10 MW eða stærri, tengjast flutningskerfinu sem skilar orkunni til stórnotenda og dreifiveitna sem flytja rafmagnið áfram til notenda á sínum svæðum.

Landsnet raforkukerfi kort.svg

Raflínur í árslok 2018

Til kerfisins teljast raflínur sem eru á 66 kílóvolta (kV) spennu og hærri, auk nokkurra 33 kV raflína. Hæsta spenna í rekstri flutningskerfisins er 220 kV en stór hluti kerfisins er á 132 kV spennu og hluti á 66 kV og 33 kV spennu. Þá eru raflínur á Suðvesturlandi og Austurlandi byggðar sem 420 kV línur, þó rekstrarspenna þeirra sé 220 kV.

Landsnet-5444-Háspennilínur 2018-tafla-bls 1.svg
Landsnet-5444-Háspennilínur 2018-tafla-bls 2.svg

Tengivirki í árslok 2018

Tengivirki í árslok 2018_Bls. 1.png
Tafla Tengivirki 2018_2.png