Afhendingaröryggi

Yfirlit

Samkvæmt reglugerð nr. 1048/2004, um gæði raforku og afhendingaröryggi, er afhendingaröryggi Landsnets metið út frá eftirfarandi stuðlum og ber fyrirtækinu að setja sér markmið um þá 3 fyrsttöldu:

1) Áreiðanleikastuðull (AS)

2) Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)

3) Stuðull um rofið álag (SRA)

4) Kerfismínútur (KM)

5) Stuðull um skerta orkuafhendingu (SSO)

6) Stuðull um meðalskerðingu álags (SMA)

 

Þessir stuðlar hafa verið reiknaðir út fyrir árið 2018. Gerð er grein fyrir þeim hér á eftir, auk þess sem samanburður 10 síðustu ára er sýndur. Við útreikning á stuðlunum eru allar fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfinu teknar með. Á myndunum hér á eftir eru truflanirnar flokkaðar eftir því hvort uppruni þeirra er í kerfi Landsnets eða í kerfum annarra sem hafa áhrif á kerfið hjá Landsneti. Þar getur i verið um að ræða truflanir í kerfum orkuframleiðenda, orkunotenda, og dreifiveitna.


Samantekið afhendingaröryggi frá flutningskerfinu

Með aukinni áraun á flutningskerfið og fjölgun rekstrartruflana hefur varaaflskeyrsla farið vaxandi, sem og skerðingar hjá notendum á skerðanlegum flutningi. Mörg dæmi eru um að snjallnetslausnir og hröð viðbrögð stjórnstöðvar hafi náð að lágmarka, eða afstýra alfarið, straumleysi til forgangsnotenda. Markmið síðustu ára um afhendingaröryggi hafa því náðst, þrátt fyrir mikinn fjölda truflana. Í töflu 1 og á mynd 1 er varaaflsvinnslu og skerðingum til notenda á skerðanlegum flutningi umbreytt í straumleysismínútur. Þannig sjást betur áhrif þessara tveggja þátta á afhendingaröryggi kerfisins og hver niðurstaðan væri ef hvorki væri aðgengi að varaafli né heimildir til skerðinga. Straumleysismínútur kerfisins hefðu þá orðið 52 mínútur en ekki 2 mínútur, eins og var raunin árið 2018.

 

Straumleysi, skerðing til notenda á skerðanlegum flutningi og vinnsla varaafls.
MWst.
SMS í mín.
Straumleysi forgangsnotenda
70,6
Straumleysi vegna truflana í öðrum kerfum
435,4
12,6 
Vinnsla varaafls vegna truflana
404,2
11,7
 Skerðing notenda á skerðanlegum flutningi882,1 25,6 
Skerðing notenda á skerðanlegum flutningi vegna truflana í öðrum kerfum
7,00,2
Samtals (straumleysi, skerðing og vinnsla varaafls)
1799,3
52,2
Tafla 1 Straumleysi, skerðing til notenda á skerðanlegum flutningi og vinnsla varaafls á öllu landinu vegna fyrirvaralausra truflana árið 2018, sett fram í orku og umreiknað í straumleysismínútur


Mynd 1 Samantekið afhendingaröryggi frá flutningskerfinu vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana.

Áreiðanleikastuðull (AS)

Áreiðanleikastuðull (AS) sýnir áreiðanleika kerfis sem hlutfall af fjölda skertra klukkustunda ársins. Þetta er hlutfallslegur mælikvarði sem má umbreyta í prósentu. Mynd 2 sýnir áreiðanleikastuðulinn umbreyttan í prósentur, ásamt markmiði okkar um að áreiðanleiki afhendingar raforku frá flutningskerfinu skuli vera meiri en 99,9905%. Það samsvarar 50 straumleysismínútum á ári eða 0,833 skertum klukkustundum. Settar eru fram nokkrar útgáfur af stuðlinum eftir því hvað er tekið inn í hann og ljósbláa línan sýnir samantekinn áreiðanleikastuðul fyrir kerfið í heild með notendum á skerðanlegum flutningi.  Aðrir stuðlar sem Orkustofnun hefur ákveðið að skulu mældir en eru án sérstakra markmiða eru settir fram í viðauka 3.

 

Mynd 2 Áreiðanleikastuðull

Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)

Straumleysismínútur (SMS) hafa hingað til verið einn helsti mælikvarði á afhendingaröryggi flutningskerfisins. Undanfarin ár hefur Landsnet haft það sem markmið að straumleysismínútur færu ekki yfir 50 mínútur á ári vegna fyrirvaralausra truflana hjá forgangsnotendum. SMS stuðullinn var 2 mínútur árið 2018 og hefur straumleysi aldrei verið lægra frá því að útreikningar á þessum stuðli hófust. Ekki er hægt að benda á eina ástæðu fyrir svo litlu straumleysi en veðurfar þetta árið var mjög hagstætt raforkukerfinu ásamt góðu fyrirbyggjandi viðhaldi, góðum kerfisvörnum, snjallnetslausnum og ekki síst snörum viðbrögðum allra aðila sem koma að truflunum í öllu raforkukerfinu. Allt þetta hefur áhrif en það gefur samt enga vísbendingu um hvernig næstu ár verða því að veðurfarið er óútreiknanlegt ásamt óvæntum bilunum. Það er líka áhugavert að skoða hvað truflanir í öðrum kerfum hafa oft víðtæk áhrif á flutningskerfið og aðra notendur í kerfinu því að straumleysi af þessum völdum fór í 12,6 mínútur 2018 og hefur ekki verið hærra í 7 ár.

 

Mynd 3 Straumleysismínútur forgangsálags í heild.


Mynd 3 sýnir straumleysismínútur forgangsálags vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana í flutningskerfinu. Skerðingar á afhendingu sem orsakast af truflunum í öðrum kerfum, s.s. vinnslukerfi, dreifikerfi eða hjá stórnotendum, eru ekki teknar með í meginniðurstöðu fyrir flutningskerfið. Hlutur þessara skerðinga er samt sýndur sérstaklega á myndum 3 til 5. Þá skal áréttað að skerðingar til notenda á skerðanlegum flutningi eru ekki teknar með við mat á straumleysismínútum flutningskerfisins.


Mynd 4 Straumleysismínútur - stórnotendur.


Á myndum 4 og 5 eru sýndar straumleysismínútur, reiknaðar fyrir stórnotendur annars vegar og dreifiveitur hins vegar. Eins og sjá má var straumleysi til stórnotenda vegna truflana í flutningskerfinu lítið miðað við árið 2017. Straumleysi vegna truflana hjá öðrum veitum jókst hins vegar nokkuð milli ára. Straumleysismínútum fyrir almennar dreifiveitur heldur áfram að fækka mikið frá árinu 2012 sem þó sker sig töluvert úr. Eðlilegt má teljast að straumleysi til dreifiveitna sé nokkuð meira að meðaltali en til stórnotenda. Þeir fá afhent rafmagn á hærra spennustigi og því færri einingar sem geta valdið truflun á afhendingu til þeirra en til dreifiveitna, sem taka við rafmagni á 66 kV spennu og í einhverjum tilvikum á 33 kV. Þetta er þó ekki tilfellið fyrir árið 2018 þar sem dreifiveitur upplifa færri straumleysismínútur en stórnotendur.


Mynd 5 Straumleysismínútur - dreifiveitur.


Mynd 6 Skipting straumleysismínútna eftir orsökum truflana.

 

Mynd 6 sýnir skiptingu straumleysismínútna eftir orsökum truflana. Rekja má stærsta hluta straumleysis árið 2018 til mannlegra mistaka annað árið í röð. Það er staðreynd sem er talin endurspegla flækjustigið sem orðið er í rekstri flutningskerfisins. Þróun varnarbúnaðar og kerfisvarna hefur verið hröð og með það að markmiði að ná betri tökum á rekstri mjög lestaðs kerfis, sem vegna veikrar byggðalínu glímir við bæði óstöðugleika og aflsveiflur milli landshluta. Farið var yfir hvert og eitt atvik og gerðar úrbætur til að fækka þeim.


Straumleysismínútur landshluta

Afhendingaröryggi Landsnets til almennra notenda er misjafnt eftir landshlutum. Hér hafa straumleysismínútur verið reiknaðar fyrir hvern landshluta fyrir sig. Þær byggja á álagi í hverjum landshluta, þannig að hér birtast þær straumleysismínútur sem hver íbúi upplifir á sínu landsvæði.

Á myndum 7 og 8 má sjá straumleysismínútur árið 2018 hjá notendum í hverjum landshluta og meðaltal síðustu 5 ára. Þar sést að fjöldi straumleysismínútna er mjög mismunandi eftir bæði landshlutum og árum, enda getur ein stór truflun skekkt þessa mynd verulega.

 Afhendingaröryggið er best á höfuðborgarsvæðinu þar sem straumleysismínútur (almennt forgangsálag) eru mjög fáar, eða að meðaltali rétt undir 2 mínútum á ári síðustu 5 árin. Næstbest var ástandið á Suðurnesjum, með tæplega 24 straumleysismínútur á ári sl. 5 ár. Þá komu Suðurland, Vesturland, Norðurland vestra og eystra og loks Austurland, með 40-70 straumleysismínútur á ári að meðaltali sl. 5 ár. Á Vestfjörðum var afhendingaröryggið lakast. Þar voru straumleysismínútur að meðaltali um 164 á ári, síðustu 5 árin. Eftirtektarvert er þó hve hratt straumleysismínútunum hefur fækkað fyrir vestan með tilkomu varaaflstöðvarinnar í Bolungarvík og snjallnetsins á Vestfjörðum, sem eru að jafnaði að bregðast við um 90 sekúndum eftir að truflun á sér stað. Meðaltalsstraumleysi síðastliðinna 5 ára minnkaði úr 589 á árinu 2017 í 163 fyrir árið 2018 og er nú í takt við straumleysi í öðrum landshlutum

 

Mynd 7  Straumleysismínútur heildarforgangsálags (dreifiveitur og stórnotendur) eftir landshlutumMynd 8 Straumleysismínútur almenns forgangsálags dreifiveitna eftir landshlutum.

Stuðull um rofið álag (SRA)

Stuðull um rofið álag (SRA) fyrir flutningskerfið var 0,09 árið 2018. Markmið Landsnets um að vera undir 0,85 náðist vel þetta árið. Á mynd 9 sést SRA fyrir flutningskerfið síðustu 10 árin.

Mynd 9 SRA - stuðull um rofið álag.

Kerfismínútur (KM)

Stuðullinn kerfismínútur (KM) gefur til kynna hve alvarlegt einstakt tilvik er. Alvarleiki tilvika er flokkaður þannig:

Flokkur 0 eru tilvik < 1 mín.

Flokkur 1 eru tilvik ≥ 1 mín. og < 10 mín.

Flokkur 2 eru tilvik ≥ 10 mín. og < 100 mín.

 Flokkur 3 eru tilvik ≥ 100 mín. og < 1000 mín.

Mynd 10 Flokkun truflana árin 2009-2018 eftir kerfismínútum


Markmið Landsnets er að engin truflun fari yfir 10 kerfismínútur. Það markmið hefur náðst í 6 ár af 10 frá 2009. Mynd 10 sýnir skiptingu kerfismínútna sl. 10 ár í ofangreinda flokka.


Notendur á skerðanlegum flutningi

Skerðanlegur flutningur á við raforkunotkun sem Landsneti er heimilt að láta skerða vegna tilvika sem tilgreind eru í gr. 5.1 í Netmála B5: Skilmálar um skerðanlegan flutning. Með aukinni áraun á flutningskerfið hafa skerðingar aukist á undanförnum árum til notenda sem kaupa skerðanlegan flutning. Skerðingar eru ýmist framkvæmdar með beiðni frá stjórnstöð til viðkomandi rafveitu eða sjálfvirkt með iðntölvum og varnarbúnaði. Til að auka rekstraröryggi og nýta betur flutningsgetu kerfisins hefur Landsnet undanfarin ár unnið að því að setja upp sjálfvirka útleysingu hjá notendum með skerðanlegan flutning. Skerðingar á rafmagni til notenda á skerðanlegum flutningi vegna rekstrartruflana höfðu aukist um 98% á árunum 2013-2015 en minnkuðu aftur árið 2016. Árið 2017 sker sig hins vegar úr í þessum samanburði, enda var skerðingin margföld miðað við árin á undan. Það stafar að mestu af bilun á Vestmannaeyjastreng 3, sem olli því að bæði bræðslur og hitaveituketill í Vestmannaeyjum voru skert í rúma tvo mánuði. Skerðingar lækka aftur þetta árið og má sjá á mynd 11 hve mikið skerðanlegir notendur voru skertir vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfinu á síðustu 5 árum.

 

Mynd 11  Skerðing til notanda á skerðanlegum flutningi í kerfi Landsnets 2014 - 2018

Vinnsla varaafls

Á svæðum þar sem flutnings- eða dreifikerfið er veikt hafa dreifiveitur komið upp varaaflsstöðvum sem framleiða raforku þegar truflanir verða á orkuafhendingu. Landsnet hefur aðgang að þessum stöðvum þegar truflanir verða í flutningskerfinu. Þær eru keyrðar í truflunum til að anna forgangsálagi og þegar unnið er að viðgerðum og viðhaldi á kerfinu. Það tekur vissan tíma að ræsa slíkar stöðvar og verður jafnan straumlaust við fyrirvaralausar truflanir, uns varaaflsstöð hefur verið ræst. Keyrsla varaaflsstöðva vegna rekstrartruflana nam 404 MWst. árið 2018. Ef aðgengi að varaafli væri ekki til staðar má ætla að straumleysismínútur til forgangsnotenda hefðu orðið 13,8 mínútur á síðasta ári í stað um 2 mínútna. Á mynd 11 má sjá vinnslu varaafls vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfinu á síðustu 5 árum.

 

Mynd 12 Vinnsla varaaflstöðva vegna fyrirvaralausra truflana í kerfi Landsnets, árin 2014-2018.