Gæði

Tíðni

 


Samkvæmt reglugerð um gæði raforku og afhendingaröryggi gilda eftirfarandi skilyrði um tíðni í raforkukerfinu: Kerfistíðni skal vera 50 Hz. Við eðlileg rekstrarskilyrði á meðalgildi rekstrartíðni, mæld yfir 10 sekúndur, að vera innan eftirfarandi marka:

 

50 Hz ± 1% (þ.e. 49,5–50,5 Hz) 99,5% tímans.
50 Hz + 4/-6% (þ.e. 47–52 Hz) 100% tímans.

 

Við vöktum tíðni- og spennugæði í öllu flutningskerfinu allan ársins hring í orkustjórnkerfinu, þar sem tíðnigildi eru skráð sjálfvirkt á tveggja sekúndna fresti. Niðurstöður mælinga á Geithálsi hafa verið teknar saman og sýnir mynd 30 dreifingu 10 sekúndna meðaltalsmæligilda. Fjöldi mæligilda er 3.148.232, meðalgildi tíðni er 50,00017 Hz og staðalfrávik mæligilda er 0,04606.

 

Heildartími, þar sem tíðni fór út fyrir 1% mörkin árið 2018, var eftirfarandi:

 

>50,5 Hz = 22,37 mín. (0,00426% af tímanum)

<49,5 Hz = 4,51 mín. (0,00086% af tímanum)

 

Samkvæmt þessu var tíðni innan marka 99,99489% af tímanum og kröfur því uppfylltar.

 

Við höfum jafnframt sett okkur innri markmið varðandi tíðnigæði sem eru:

 

Í hverjum mánuði skulu 99,5% mæligilda vera innan marka sem eru 50 Hz +/- 0,2 Hz. Miðað er við 10 sekúndna meðalgildi. Á árinu 2018 var tíðni innan þessara marka alla mánuði ársins. Meðaltal ársins var 99,7799%.


Spenna

Samkvæmt reglugerð um gæði raforku og afhendingaröryggi nr. 1048/2004 eiga raforkufyrirtækin að mæla eiginleika spennu í samræmi við spennustaðalinn ÍST EN 50160. Okkur ber að gera úrtaksmælingar á a.m.k. sex afhendingarstöðum árlega. Árið 2018 voru gerðar sérstakar úrtaksmælingar með nákvæmum gæðamælitækjum á eftirtöldum afhendingarstöðum:

 

Glerárskógar, 132 kV
Ásbrú, 33 kV
Bakki, 220 kV
Lagarfoss, 66 kV
Vestmannaeyjar, 66 kV
Vogaskeið, 66 kV

 

Mælingar stóðu samfleytt í a.m.k. viku á hverjum stað og voru gæðakröfur uppfylltar á öllum stöðum nema Bakka, 220 kV. Á Bakka voru spennuföll vegna álagsbreytinga það tíð að spennugæði voru ekki uppfyllt þar. Í viðauka 5 eru sýnd spennugildi fyrir afhendingarstaði í flutningskerfinu. Skoðuð var dreifing 5 mínútna gilda í öllum tilvikum og voru mælingarnar teknar úr orkustjórnkerfinu. Samkvæmt áðurnefndri reglugerð skal afhendingarspenna vera innan skilgreindra vikmarka sem eru ±10%. Meiri kröfur hafa verið gerðar til afhendingarspennu hjá stórnotendum og þar hafa vikmörk afhendingarspennu verið skilgreind +5%/-9%. Miðað er við þau mörk þegar 220 kV flutningskerfið er skoðað. Niðurstöður sýna að afhendingarspenna var innan marka á öllum stöðum nema í Laxá þar sem spennan fór aðeins yfir mörk og á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Bolungarvík og á Ísafirði. Spennan í Bolungarvík og á Ísafirði fór aðeins niður fyrir neðri mörkin og má rekja ástæðuna til spennuleysis vegna truflana og/eða viðhalds. Einnig er 66 kV kerfið á Vestfjörðum rekið örlítið undir spennuviðmiði, í samráði við Orkubú Vestfjarða.